Sagan mín

Alveg frá því að ég man eftir mér dreymdi mig um að ná langt í fótbolta.    Ég æfði fyrst fótbolta í Leikni sem var þá með mjög lélegt lið.  Við töpuðum oft 9-0, 12-0 og eitt skiptið meira að segja 21-0.  Við spiluðum oftast við mun eldri stráka einhverra hluta vegna og á stór mörk.  Einn daginn skipti ég yfir í Víking, sennilega útaf því að pabbi hélt með Víkingi.  Ég fór í 6. flokk  og lék þar með Helga Sigurðssyni og fleiri góðum leikmönnum.  Ég var í Hólabrekkuskóla í efra Breiðholti, næstfjölmennasta skólanum þá á Íslandi og í skólanum voru nokkrir leikmenn sem náðu langt í fótbolta.  Sigurður Örn Jónsson og Pétur Hafliði Marteinsson sem dæmi.  Ég var alltaf í fótbolta, allan grunnskólann á hverjum degi og langt fram á kvöld.  Man ekki eftir mér öðruvísi.  Fór meira  segja á veturna og spilaði í snjónum, oft einn en stundum með vini mínum.  Ég var tæknilega góður og þegar ég sá einhvern gera trix með boltann reyndi ég alltaf að herma eftir og ná fullu valdi á þeirri tækni.  Þannig sá ég 12-13  ára gamall að Hólmsteinn Jónasson leikmaður Fram og Víkings gat haldið boltanum á enninu á sér og labbað með boltann langar leiðir svoleiðis.  Svo  ég fór að æfa mig í því þangað til ég gat það.  Ég var líka fljótur að hlaupa.  Það voru ekki margir fljótari að hlaupa en ég í skólanum.  Ég æfði líka báða fætur vel.  En ég var lítill og aumur langt fram eftir aldri.  Ég var líka frekar linur í návígjum og ekki góður skallamaður.  Ég hafði því mína styrkleika og veikleika.

Á yngra ári var ég alltaf varamaður eða í B-liðinu en á eldra ári var ég yfirleitt í liðinu.  Ég ákvað í 3.flokki um 15 ára gamall að skipta um lið.  Aðalástæðan var að þjálfari Víkings á tímabili mætti illa á æfingar.  Ég tók strætó úr Breiðholtinu á æfingu og svo var enginn þjálfari, ég var pirraður á því og hafði meiri metnað.  Víkingur var c.a. fjórða eða fimmta besta liðið á landinu í mínum aldursflokki og ég vildi fara í betra lið.  Ætlaði að prófa bæði hjá KR og Fram, mætti fyrst hjá KR og fannst gaman, endaði því þar.  Ég tók yfirleitt 2 strætóa og skipti á Hlemmi til að komast á æfingar.  Það tók klukkutíma að komast á æfingu og klukkutíma heim.  Hjá KR æfði ég með strákum sem voru betri en ég á mörgum sviðum og það var lærdómsríkt.  Það tók mig rúmt ár að vinna mér sæti í byrjunarliðinu, þá var ég kominn í 2.flokk. Ég varð Íslandsmeistari með KR í 3. flokki árið 1989 en var oft varamaður.  Það sem mig vantaði var líkamlegur styrkur, mér var ýtt af boltanum.

Mér gekk vel í 2.flokki og á miðárinu var ég farinn að æfa með meistaraflokki reglulega og vann mér sæti í byrjunarliðinu og spilaði í byrjunarliði fyrri helming Íslandsmótsins 1992, þá 18 ára gamall.  Það fannst mér ævintýri líkast.  Ég spilaði með Atla Eðvaldssyni landsliðsfyrirliðanum og mörgum öðrum frábærum leikmönnum sem ég leit upp til fyrir félagið sem ég elskaði.  Það var stórkostlegur tími. Á miðju sumri reif ég liðþófa í hnénu og var frá í 8 mánuði.  Næstu ár voru mér erfið, 2 ár varamaður hjá KR, 2 ár hjá Víkingi í næstefstudeild í basli og ég orðinn 23 ára gamall og hafði ekki spilað meira en c.a 40 leiki í deild og marga þeirra sem varamaður.  En þá fóru hlutirnir loksins að gerast.

Næstu 3 ár tók ég miklum framförum, varð líkamlega sterkari, vann mig úr því að vera á tíma varamaður í Víkingi í næstefstudeild í því að komast í atvinnumennsku í fótbolta í Englandi og spila þar í næstefstudeild.  Ég lék í 3 ár sem atvinnumaður í Belgíu og Englandi, það var frábær reynsla og eitthvað sem ég bý að alla ævi.  Það var lærdómsríkur tími því ég kynntist góðu og slæmu hliðunum á atvinnumennskunni og upplifði árangur en líka hvað lífið getur stundum verið ósanngjarnt. Ég flutti svo heim til Íslands og lék 3 ár með KR og náði að vinna með þeim tvo Íslandsmeistaratitla, vann bronsskóinn fyrir markaskorun fyrsta árið mitt með þeim og endaði svo ferilinn minn með ÍA árið 2005.  Á síðustu fótboltaæfingunni minni sleit ég krossbönd og fór þar með í fjórðu eða fimmtu hnéaðgerðina á vinstra hnénu.  Þá var kominn tími til að snúa sér að þjálfun.

Þó ég hafi ekki náð þeim draum mínum að komast í A-landsliðið í fótbolta náði ég samt betri árangri sem leikmaður heldur en flestir sem æfa knattspyrnu hér á landi.  Ég náði ekki í allra fremstu röð en náði samt langt.  Stelpurnar í kvennalandsliðinu fara eflaust að hlæja því í dag er ég hreint ekki góður í fótbolta og skrölti áfram á öðru hnénu en einu sinni var ég góður í fótbolta stelpur!  Í alvöru!

En þegar ég lít tilbaka á ferilinn minn og skoða svo út frá þeirri þekkingu sem ég hef í dag um hvað þarf til að ná árangri kemst ég að eftirfarandi niðurstöðu:

 • Á aldrinum 15-23 ára æfði ég of lítið fótbolta og fékk almennt ekki nógu góða kennslu og tilsögn.
 • Á sama aldri datt mér ekki í hug að æfa markvisst aukalega sjálfur, byrjaði á því ekki fyrr en ég var 23 ára gamall og þá fór ég líka að ná árangri.
 • Mataræðið hjá mér var ekki nærri því nógu gott og ég fékk almennt alltof lítinn svefn.  Ég bætti úr þessu á seinnipart ferilsins en yfir langan tíma verður þetta takmarkandi þáttur á frammistöðu.
 • Ég var 22 ára þegar ég setti mér fyrst markmið og skrifaði þau niður og vann að þeim markvisst.  Það er 7-8 árum of seint.
 • Ég eyddi of litlum tíma í að fyrirbyggja frekari hnémeiðsli með því að styrkja vöðvana í kringum hnéð á veikari fætinum.
 • Ég vann alltof mikið með skólanum og fótboltanum til að geta einbeitt mér nægilega að því að ná árangri í honum.
 • Ég þekkti engan sem ráðlagði mér og sagði mér til um hvernig ég ætti að haga mínum ferli, ég var feiminn og óframfærinn og spurði aldrei þjálfarann minn hvað ég gæti bætt eða af hverju ég væri ekki í liðinu.  Þetta var líka takmarkandi þáttur hjá mér.
 • Ég hefði viljað óskað þess að einhver hefði haldið fyrir mig fyrirlesturinn minn “Hvað þarf til að ná árangri – Hugarfar sigurvegarans” þegar ég var 15 ára gamall.  Það hefði haft mjög mikil áhrif á mig.
 • Þó margt hefði mátt fara betur eins og hjá eflaust öllum þá er lærdómurinn minn kannski sá að með því að leggja á sig markvissa og mikla vinnu uppsker maður yfirleitt eins og maður sáir.  Það er ekki tilviljun að sumir eru betri í fótbolta en aðrir, á bakvið það liggur mikil vinna, ekki bara á meðan á æfingunni stendur heldur markviss vinna á hverjum degi í mörg ár.
 • Ég vildi að ég hefði haft sama sjálfstraust, ástríðu og hugarfar og ég er með í dag í þjálfun þegar ég var leikmaður í fótbolta.

Í dag lít ég á knattspyrnuferilinn minn sem lærdóm og reynslu sem ég ætla að reyna að nýta eins vel og ég get til að hjálpa öðrum að ná árangri en það er jafnvel ennþá meira gefandi en að ná árangri sjálfur. Alveg frá því ég man eftir mér dreymdi mig um að ná langt í fótbolta en í dag dreymir mig um að hjálpa öðrum að upplifa drauma sína rætast.

Siggi Raggi

3 Responses to "Sagan mín"

 • Mani says:
 • Beini says:
 • admin says:
Leave a Comment