Hvernig vitum við hverjir munu skara fram úr?

Í starfi mínu sem landsliðsþjálfari er ég stöðugt að reyna að meta hvaða leikmenn munu skara fram úr í framtíðinni. Yngri landsliðsþjálfarar spá stöðugt í hverjir eru efnilegustu leikmennirnir og verða seinna A-landsliðsmenn. Íþróttafélög velta fyrir sér sömu spurningu. Fyrir félögin getur þetta skipt mjög miklu máli því allir vilja eignast frábæra uppalda leikmenn og með því að hafa efnilega leikmenn opnast möguleikinn á að þeir fari seinna til stórra liða fyrir háar fjárhæðir og geti þannig skapað félögunum miklar tekjur.
Hvað er þá efnilegur leikmaður? Er það leikmaður með hraða, tækni, sjálfstraust, hugarfar eða hverju eigum við að leita eftir?

Það er gríðarlega erfitt að segja til um hverjir munu ná árangri. Arsene Wenger stjóri Arsenal missti af Zlatan Ibrahimovic og Ronaldo á sínum tíma. Fjölmörg svipuð dæmi má nefna úr íþróttum. Á aðeins 3 árum eða svo fór Aron Jóhannsson frá því að vera leikmaður í 1.deild á Íslandi í að vera einn markahæsti leikmaður Danmerkur og keyptur yfir til Hollands á háar fjárhæðir. Alfreð Finnbogason fór á nokkrum árum frá því að vera varamaður í 2.flokki Breiðabliks í að verða einn markahæsti leikmaður Hollands. Michael Jordan komst ekki í skólaliðið sitt í körfubolta þegar hann var 16 ára en var orðinn besti leikmaður heims nokkrum árum seinna.

Sá eiginleiki sem mér finnst persónulega hafa besta forspárgildið um hvort leikmaður nái langt er hversu “self-motivated” leikmaðurinn er. Hversu mikinn sjálfsaga leikmaðurinn hefur og hvað hann er tilbúinn að leggja mikið á sig til að skara framúr. Mér finnst meiri líkur á að sá leikmaður skari fram úr heldur en sá sem er afgerandi fljótur eða áberandi flinkur o.s.frv. en skortir þessa eiginleika. Ef þú finnur leikmann sem er mjög “self-motivated” og hefur að auki framúrskarandi annan eiginleika sem nýtist í íþróttinni ertu með stórauknar líkur á að viðkomandi nái árangri. Keppnisskap skiptir líka gríðarlegu máli, bestu leikmennirnir eiga það sameiginlegt að þola ekki að tapa og leggja á sig gríðarlega vinnu til að sigra og ná árangri.

Í fyrra var ég í sambandi við Peter Vint prófessor sem kenndi mér í University of North Carolina at Greensboro en er núna high performance director hjá United States Olympic Committee, hann er eftirsóttur fyrirlesari um allan heim um talent identification og talent development enda vinnur hann með Ólympíuíþróttafólki Bandaríkjanna. Það segir kannski mikið um þessa list að spotta út efnilegt íþróttafólk að hann sagði eitthvað í þá veru að ef hann ætti 100 milljónir í að búa til afreksfólk í íþróttum myndi hann eyða 1 milljón í að reyna að finna efnilegasta íþróttafólkið en 99 milljónum í að þjálfa það upp.

Hér að neðan er svo mjög áhugaverður fyrirlestur um það hverju við ættum að líta eftir þegar við veljum efnilega leikmenn.

Siggi Raggi

Leave a Comment