How many of your players have a trick?

Fyrir 8 árum síðan ferðaðist ég til Lilleshall á Englandi og hélt þar þjálfaranámskeið á vegum KSÍ fyrir marga af fremstu knattspyrnuþjálfurum Íslands á þeim tíma.  Við undirbúning námskeiðsins setti ég mig í samband við Howard Wilkinson hjá enska knattspyrnusambandinu og bað hann um að mæla með fyrirlesurum á námskeiðið okkar.  Hann mælti með 60 ára reynslubolta sem hafði gríðarlega mikla þjálfunarreynslu og hét Mick Hennigan. Ég kunni engin deili á Mick önnur en að hann var að þjálfa hjá Rotherham en treysti innsæi Howards.  Kvöldið áður en Mick átti að kenna á námskeiðinu hitti ég hann á herberginu hans og ætlaði að fara yfir á 5 mínútum skipulag kennslunnar, kynna mig og svo halda mína leið.

En þegar ég settist niður og spjallaði við Mick sá ég að þetta var klár karl sem hafði frá ótrúlega mörgu áhugaverðu að segja.  Hann var algjör viskubrunnur og ég lærði mjög mikið af því að spjalla við hann en einkum af því að hlusta.  Það sem átti að vera 5 mínútna spjall breyttist í margra klukkutíma djúpar samræður um fótbolta og þjálfun.  Eitt er mér þó minnistæðast af því sem hann sagði og það hef ég rifjað upp reglulega síðan en það var þetta:

Mick spurði mig. “Hvað hafa meistaraflokksleikmenn í fótbolta eytt mörgum klukkutímum í að æfa fótbolta”? Ég svaraði einhvern veginn á þá leið kannski að jafnaði 5x í viku í kannski 15-25 ár, (mörg þúsund klukkurtímar af æfingum undir handleiðslu hæfra þjálfara).

Þá spurði Mick mig að þessu: “How many of your players have a trick?”  Ég skildi ekki spurninguna svo hann útskýrði fyrir mér að þrátt fyrir að allir fótboltamenn í meistaraflokki hafi gengið í gegnum mörg þúsund klukkutíma þjálfun og kennslu í knattspyrnu ásamt því að hafa eytt ómældum tíma í að æfa sig sjálfir með bolta að þá eru það sjaldnast fleiri en 1-2 leikmenn í hverju liði sem ráða við það að vera framúrskarandi í að leika á mótherja í stöðunni 1 á móti 1.  Er það ekki alveg hreint magnað?  Þetta er nefnilega hárrétt tölfræði hjá honum að mínu mati.

Hver er ástæðan?  Eru þjálfarar svona lélegir að þeir geta ekki kennt nógu mörgum leikmönnum þessa færni?  Eða er þetta svona erfið færni að læra?  Eru kannski fleiri leikmenn með þessa færni en þora ekki að nota hana af ótta við að missa boltann, af ótta við að vera skammaðir fyrir það, af ótta við að mistakast og vera öðruvísi en hinir sem senda allir á næsta mann?  Gleymdum við að kenna fótboltaleikmönnunum okkar hvernig á að byggja upp gott sjálfstraust, að hafa trú á eigin getu og þora að leika á menn?  Allt andlegir eiginleikar.

Ég rifja þetta oft upp.  Málið er að langflestir verða bara meðalgóðir í því sem þeir taka sér fyrir hendur.  Langflestir eru Meðal-Jónar.  Kannski örlítið betri en það en samt ekki miklu betri og þó að þú hafir eytt mörg þúsund klukkutímum í æfingar í einhverju er engan veginn víst að þú verðir framúrskarandi í því.  Það eru í raun alveg ótrúlega fáir sem verða framúrskarandi í því sem þeir taka sér fyrir hendur.  Af hverju er það?  Hvað einkennir þá sem verða framúrskarandi, hvað gerir þá svona góða?

Það er spurningin sem ég leita svara við.

Ein pæling í lokin.  Þeir sem eru framúrskarandi góðir í stöðunni 1 á móti 1 sóknarlega eru eftirsóttustu og dýrustu leikmenn heims, Messi, Ronaldo o.s.frv..  Þeir eru öðruvísi, þeir geta breytt leiknum og gert gæfumuninn.  Þeir hafa byggt upp færni sem afskaplega fáir hafa og það er alltaf verðmætt.  Getur þú byggt þér upp svoleiðis færni á þínu sviði?  Þarf ekki að vera í fótbolta.  Af hverju í ósköpunum banna þjálfarar leikmönnum sínum í fótbolta oft að einleika?  Ef við steypum alla í sama mót og notum alltaf sömu uppskriftina í þjálfun munum við alltaf baka sömu kökuna og fá upp eins leikmenn.

Nú skaltu taka fótboltann út úr dæmisögunni hér að ofan og sjá hvort hún tengist ekki á sama hátt lífi þínu og því sem þú ert að fást við, vinnunni þinni, náminu þínu o.s.frv.

Gangi þér vel að verða framúrskarandi í því sem þú tekur þér fyrir hendur og vertu einn af “leikmönnunum sem eiga sér trick” og ef þú ert kennari, þjálfari, foreldri eða uppalandi getur þú haft stórkostleg áhrif í að byggja upp næstu kynslóð á þann hátt.

Siggi Raggi

 

Leave a Comment