Á ég að hringja í vælubílinn?

Vorkennir þú stundum sjálfum þér?  Finnst þér lífið stundum erfitt, þjálfarinn ósanngjarn, veðrið ekki gott til æfinga, smá meiðsli að plaga þig eða ertu pínu þreyttur í dag og getur því ekki æft?  Finnst þér allt vera einhverjum öðrum að kenna að þú hefur ekki náð markmiðunum þínum, þjálfaranum, liðsfélögunum eða dómaranum?  Býrð þú þér  til afsakanir og falskar skýringar á af hverju þú náðir ekki  þeim árangri sem þú stefndir að?

Ég veit eitt gott ráð!  Settu hendurnar beint fram og hafðu þær útréttar.  Beygðu þær svo og færðu hnúana upp að augunum.  Nuddaðu svo augun og vældu hátt “Buhuhuhu!!”.  Ég skal svo hringja í vælubílinn.

Eða þú getur horft á þetta vídeó hér að neðan og séð að það er ekkert annað að gera en að bíta á jaxlinn og leggja ennþá harðar að sér, bera ábyrgð á þinni eigin frammistöðu.  Vertu besta útgáfan af sjálfum þér og ekki láta neitt takmarka þig.  Þá nærðu árangri!

 

Siggi Raggi

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. No Comments

Ástríða er lykill að árangri

Ástríða er lykilatriði í því að ná árangri.  Ástríða og árangur eru nátengd fyrirbæri því ástríða er oft forsenda árangurs en verður svo líka afleiðing árangursins.  Þannig fáum við oft ennþá meiri ástríðu fyrir hlutunum eftir því sem náum betri árangri í því sem við erum að fást við.

Hér má sjá dæmi um þá miklu ástríðu sem Forrest Whitaker leikari hefur fyrir því að leika en þessa hjartnæmu ræðu hélt hann þegar hann tók á móti Óskarsverðlaunum fyrir besta leik í aðalhlutverki.  Forrest Whitaker er afreksmaður sem við getum lært af því hærra verður ekki komist í hans fagi.  Hefur þú brennandi ástríðu fyrir því sem þú ert að fást við líkt og Forrest Whitaker?

Besti leikmaður heims í knattspyrnu í dag er Lionel Messi leikmaður Barcelona.  Hann er með gríðarmikla ástríðu fyrir fótbolta og myndi eflaust spila fótbolta þó hann fengi ekki krónu fyrir það.  En Messi þurfti að ganga í gegnum mikla þrautargöngu til að verða bestur.  Hann m.a. þurfti að fá sprautur á hverjum degi í 3 ár því hann var svo lítill.  Ef Messi hefði ekki haft ástríðu fyrir fótbolta öll erfiðu árin hefði hann líklega gefist upp og endað á því að ná ekki árangri.  Sjá hér.

Hvað segir þá stjórnandinn og einn af stofnendum Apple Steve Jobs um ástríðu og árangur?  Jú Steve Jobs var á því að uppskriftin að árangri væri að hafa ástríðu fyrir því sem þú ert að gera.  Ef þú hefur ekki ástríðu fyrir því sem þú ert að gera er mjög erfitt að ná árangri því yfirleitt þarf maður að leggja á sig svo mikla vinnu til þess að ná langt og ef þú hefur ekki gaman af  því að leggja á þig þá vinnu verður árangurinn ekki eins góður.  Ef þér finnst leiðinlegt að hlaupa geturðu sennilega aldrei orðið góður langhlaupari.  Veldu þér því eitthvað sem þér finnst skemmtilegt og áhugavert og eitthvað sem þú algjörlega getur gleymt stund og stað við að gera.  Það er eitthvað sem þú hefur ástríðu fyrir.  Í því geturðu náð árangri.  Það er þó mikilvægt að vita að stundum byrjar maður á einhverju sem  maður hefur ekki mikla ástríðu fyrir en svo vex ástríðan smátt og smátt þar til maður verður algjörlega smitaður.  Það er því ekki til nein formúla fyrir ástríðu.

Annað athyglisvert sem Steve Jobs segir er að annar mikilvægur lykill að árangri er fólkið í kringum þig og við komum nánar að þeim mikilvæga þætti síðar.

Fyrir hverju hefur þú ástríðu fyrir í lífinu?

Hvernig má skipta öllu fólki upp í flokka eftir ástríðu?  Hvað einkennir hvern flokk og í hvaða flokki ert þú?

Get ég gert eitthvað í því að auka ástríðu mína sem einstaklingur, íþróttamaður eða starfsmaður og þannig færst upp um flokk?

Geta þjálfarar, stjórnendur og foreldrar gert eitthvað til að auka ástríðu þeirra sem þau þjálfa, stjórna eða vilja hafa áhrif á?

Í fyrirlestrunum sem ég held leitast ég meðal annars eftir að svara þessum spurningum og mörgum öðrum.

Ástríða er lykill að árangri.  Hvort sem þú ert leikari, söngvari, íþróttamaður, þjálfari, stjórnandi eða starfsmaður á plani.

Siggi Raggi .

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. 2 Comments

siggiraggi.is fær frábærar viðtökur

Mig langar að þakka ykkur öllum kærlega fyrir sem hafa komið inná siggiraggi.is.

Í gær setti ég inn tölfræðiforrit til að sjá hversu margir koma inn á síðuna en síðan klukkan 16.00 í gær hafa komið 1.100 manns inn á síðuna .  Það er ótrúlega flott finnst mér.  Það er langt fram úr vonum því ég hef ekki auglýst síðuna neitt.  Treysti á ykkur í þeim efnum að ef ykkur finnst síðan góð að þið segið öðrum frá henni!

Þið megið endilega skrifa mér ef þið eruð með óskir eða skoðanir, það er hægt að bæta við “comments” eftir hvern póst og síðan verður meira lifandi og skemmtileg svoleiðis.  Ég mun reyna að svara eftir bestu getu.

En allavega takk kærlega fyrir mig og vonandi nýtist efnið ykkur og verður ykkur hvatning til góðra verka!

Siggi Raggi

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. No Comments

Hvað einkennir afreksfólk? Roy Keane vs. Paul Scholes

Fyrir nokkrum árum var ég á Pro licence þjálfaranámskeiði hjá enska knattspyrnusambandinuog með mér á námskeiðinu var enginn annar en Manchester United goðsögnin Roy Keane.  Roy átti frábæran feril  og spilaði auðvitað með mörgum stórkostlegum leikmönnum hjá Manchester United á tímabili þar sem Manchester United var eitt allra besta félagslið heims.  Einn daginn á námskeiðinu var Roy Keane spurður hver var besti leikmaðurinn sem hann hafði spilað með.  Svarið hans var stutt og laggott – Paul Scholes.  Roy lýsti Paul Scholes sem hinum fullkomna miðjumanni.  “Hann hefur allt” sagði hann, frábærar sendingar, frábær skotmaður, ótrúlegt auga fyrir leiknum, hann skorar mörk, hann er duglegur, harður af sér í návígjum, sennilega mest alhliða leikmaður sem fyrirfinnst”.

Þetta svar frá Roy Keane kom mér á óvart, ég vissi auðvitað að Paul Scholes væri góður leikmaður en ég bjóst við að hann teldi marga aðra vera betri.  Paul Scholes hafði aldrei verið áberandi leikmaður fannst mér, hann var lítið í fjölmiðlum, þögull, feiminn, fjölskyldumaður sem mætir á æfingu og fer svo heim og leikur sér við börnin sín.  Ekki þessi dæmigerða “stjarna”.  En eftir þetta fór ég að stúdera Paul Scholes betur og hvernig hann spilar fótbolta.

Paul Scoles er nefnilega einn allra besti sendingamaður sem fyrirfinnst í sögu knattspyrnunnar.  Bestu sendingamenn heims tala um hann sem besta miðjumann sinnar kynslóðar og litu upp til hans.  Hér má sjá vídeó með frábærum sendingum Scholes í gegnum tíðina með Manchester United.  Ótrúleg sendingageta, sendingar í öllum regnbogans litum.  Ef þú ert að æfa eða hefur skilning á fótbolta þá sérðu þarna listamann sem hefur náð fullkomnu valdi á sendingum.  Hér er annað vídeó þar sem sést hversu stórkostlegur skotmaður hann er.  Það er líka áhugavert að skoða hvað aðrir bestu leikmenn heims í knattspyrnu segja um Paul Scholes.  Leikmenn eins og Zidane, George Best, Pele, Xavi, Iniesta, Messi o.s.frv.  Það má sjá hér í þessu vídeói. 

En af hverju set ég þetta inn undir kafla sem heitir  “Hvað einkennir afreksfólk?”  Jú, Paul Scholes og Roy Keane eru sennilega ólíkustu persónuleikar sem fyrirfinnast en báðir frábærir knattspyrnumenn.  Keane algjörlega ófeiminn og segir umbúðalaust sínar skoðanir og líður vel í sviðsljósinu og er fyrirliðatýpan, en Scholes er meira inni í sér, óframfærinn, líður illa í sviðsljósinu, blandar lítið geði við aðra, veitir sjaldan viðtöl, er lýst sem einfara og vill helst vera heima hjá sér þegar hann er ekki í fótbolta.  Þetta eitt segir okkur að ein persónuleikaeinkenni umfram önnur eru ekki bráðnauðsynleg til að ná framúrskarandi árangri.  Það er til afreksíþróttafólk með mjög ólík persónuleikaeinkenni og því er hættulegt að ætla að velja út íþróttafólk á unga aldri út frá persónuleikaeinkennum.  Besta leikmanni heims í dag – Messi er t.d. lýst sem barnslega feimnum strák sem elskar að spila fótbolta.

Lærdómurinn er því þessi: Þú getur náð framúrskarandi árangri sama hvernig persónuleikaeinkenni þú hefur.

Siggi Raggi

p.s. Ef þú ert leikmaður í fótbolta, kíktu þá aftur á vídeóin af Paul Scholes og farðu svo út á völl og æfðu sendingarnar þínar!

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. No Comments

Music is my sport

Í undirbúningi okkar fyrir landsleiki hjá A-landsliði kvenna í knattspyrnu horfum við alltaf á mótiverandi vídeó.  Yfirleitt bý ég þau sjálfur til en stundum lærum við af öðrum, jafnvel af einhverjum í allt öðrum geira.  Hér er vídeó sem ég sýndi stelpunum í síðasta landsliðsverkefni.

Ne-Yo er frábær söngvari, lagahöfundur, tónlistarframleiðandi, dansari og leikari.  Hann hefur unnið Grammy verðlaun og samið metsölulög fyrir fjölmarga af fremstu söngvurum og söngkonum í heimi. Ne-Yo er afreksmaður á sínu sviði. Í þessu vídeói má sjá hvernig hann nálgast “íþróttina sína” – sem er tónlist.  Í vídeóinu felst margvíslegur lærdómur sem þú getur tileinkað þér ef þú vilt ná árangri.  Hver er” íþróttin þín” og hvernig nálgast þú hana?

 

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. No Comments