Við breyttum heiminum!

Á þriðjudagsnótt skrifaði ég pistilinn “Þú getur breytt heiminum”.  Núna um 2 dögum seinna hafa um 13.000 manns lesið pistilinn hér á síðunni og yfir 3.000 manns hafa deilt þessum pistli á facebook.  Pistillinn fór á alla stærstu vefmiðla landsins.  Um hann var fjallað á sjónvarpsstöðvunum, mörgum útvarpstöðum og dagblöðum.  Í gær var meira að segja lesið orðrétt upp úr pistlinum á Alþingi!

Ég hef aldrei vitað önnur eins viðbrögð.  Ég skrifaði pistilinn á 10 mínútum eða svo en hann kom beint frá hjartanu og um málefni sem er okkur öllum kært.  Ég vil þakka öllum innilega sem deildu þessum pistli.  Við erum að tala um að 1% þjóðarinnar deildi pistlinum á facebook af þessari síðu og þá á eftir að telja þá sem deildu pistlinum af ksi.is, fotbolti.net, mbl.is, visir.is, sport.is, 433. is o.s.frv.

Í kvöld leit ég upp í stúku á Laugardalsvelli og sá ekkert autt sæti.  Það var magnað.  KSÍ þurfti að opna hina stúkuna í fyrsta skipti á kvennalandsleik, það var líka magnað.  En það besta af öllu var að sigur vannst á Úkraínu og að kvennalandsliðið er komið í lokakeppni EM 2013 sem fer fram næsta júlí í Svíþjóð.  Takk fyrir frábæran stuðning kæru landsmenn.  Nýtt aðsóknarmet var slegið á kvennalandsleik í kvöld svo um munaði.  Við breyttum heiminum í kvöld!

Siggi Raggi

 

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. 1 Comment

Þú getur breytt heiminum!

Ég sendi þennan tölvupóst út á 70 fyrirtæki í dag…Deildu á alla sem þú þekkir og sendu á öll fyrirtæki á Íslandi!

Kæri stjórnandi,

Í dag ætlar þú og fyrirtækið þitt að hjálpa mér að breyta heiminum.

Ég heiti Siggi Raggi og hélt fyrir nokkru fyrirlestur fyrir starfsmenn eða stjórnendur í fyrirtækinu þínu.  Fyrirlesturinn hét: Hvað þarf til að ná árangri? – Hugarfar sigurvegarans.

Í upphafinu á þeim fyrirlestri sagði ég að „það fyrsta sem maður þarf að gera til  að ná árangri er að eiga sér draum“.

Á morgun klukkan 18.30  á Laugardalsvelli munu 18 landsliðskonur Íslands sjá æskudrauma sína um að komast í lokakeppni stórmóts rætast eða verða að engu.

Ísland spilar þá við Úkraínu úrslitaleik um að komast í lokakeppni Evrópumóts kvennalandsliða.

Nú ætla ég að hugsa eins og sigurvegari og biðja þig um greiða sem breytir heiminum…

Heimurinn sem þú ætlar að hjálpa mér að breyta er í huga þessara 18 stúlkna sem leika knattspyrnu fyrir íslenska kvennalandsliðið og dreymir um að komast í lokakeppni.  Það eru 18 stelpur sem spila alltaf með hjartanu og fórna sér fyrir íslensku þjóðina.  Þær hafa alist upp við að stelpur í fótbolta séu ekki jafn merkilegar og strákar.  Það hefur meðal annars endurspeglast í því að mun færri koma að styðja þær heldur en strákana okkar.

Ég ætla því að biðja þig um að kaupa miða fyrir allt starfsfólkið þitt á A-landsleik Íslands og Úkraínu sem fer fram á morgun (fimmtudaginn 25.okt) kl 18:30 á Laugardalsvelli.  Miðinn kostar bara 1.000 krónur.

Ég sendi þennan póst á 70 fyrirtæki og ef þið komið öll verður pottþétt uppselt!

Ég hef þjálfað kvennalandsliðið í 6 ár.  Öll árin hefur mig dreymt um að stelpurnar fengju að upplifa það að spila fyrir framan fullan Laugardalsvöll en völlurinn tekur 10.000 manns í sæti.

Ég á sjálfur litla stelpu sem er að alast upp við það að íþróttir stúlkna fá ekki sömu athygli, umfjöllun og fjármagn og karlaíþróttir.  Hver segir að heimurinn okkar þurfi að vera svoleiðis?  Við erum föst í viðhorfum sem gamlar hefðir hafa mótað en það er hægt að breyta heiminum.  Ég og þú getum það saman!

Venjulega koma á milli 3.000 og 4.000 manns á landsleikina okkar en mest hafa komið 6.000 manns á völlinn.  En ég vil fá 10.000 manns!  Með því að það verður uppselt á kvennalandsleikinn breytum við heiminum.  Ekki bara hjá þeim 18 stelpum sem klæðast landsliðstreyjunni í leiknum.  Heldur í huga allra lítilla stúlkna sem æfa íþróttir á Íslandi.  Stelpurnar eru nefnilega jafn merkilegar og strákarnir.  Innst inni vitum við að það er rétt.  Ég ætla að taka þátt í að breyta heiminum og ég vona að þú gerir það líka.

Ég treysti á að þú kaupir miða og allir í fyrirtækinu þínu mæti á völlinn!  Takk fyrir að hjálpa mér að breyta heiminum!

Sjáumst á vellinum.

Áfram Ísland!

Siggi Raggi

A-landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu

P.s. Þú kaupir miða með því að senda tölvupóst á Þóri framkvæmdastjóra KSÍ thorir@ksi.is, tilgreindu bara fjölda miða og þeir verða afhentir þér/fyrirtækinu þínu samdægurs.  Sendu endilega cc á mig líka.  Takk fyrir stuðninginn!

Landsleikurinn á morgun er úrslitaleikur um að komast í lokakeppni Evrópumóts kvennalandsliða sem fer fram í Svíþjóð á næsta ári.

Ef þú vilt breyta heiminum deildu þá þessum pósti út um allt.  Sendu hann til allra fyrirtækja á Íslandi!

Siggi Raggi

  .

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. No Comments

Be a champion

Syrpan sem ég bjó til fyrir leikmenn A-landsliðs kvenna fyrir landsleikinn gegn Úkraínu á morgun…

Vildi deila með ykkur með von um að þið komið að styðja stelpurnar okkar í seinni umspilsleiknum 25. október á Laugardalsvelli.  Í húfi fyrir okkur er sæti í lokakeppni EM 2013.  Stelpurnar eiga skilið að fá góðan stuðning.  Njótið vel, sjáumst á vellinum og áfram Ísland!

Be a champion from KSI on Vimeo.

 

 

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. No Comments

Að læra af þeim bestu

Ég fór á landsleikinn Ísland-Sviss í kvöld á Laugardalsvelli og ég var stoltur af landsliðinu okkar þrátt fyrir tap.  Upp til hópa eru þetta frábærir drengir sem skipa liðið og þjálfarar liðsins og allir í kringum liðið eru virkilega færir á sínu sviði.  Þar ríkir fagmennska og mikill vilji til að ná árangri.  Það er uppskrift sem á eftir að skila sér þó það taki auðvitað alltaf einhvern tíma því liðið er ungt og stutt síðan þjálfararnir byrjuðu með liðið.  “Strákarnir okkar” eru ekkert öðruvísi en “stelpurnar okkar”, þeir spila af lífi og sál fyrir land og þjóð og við eigum að vera stolt af þeim því þetta eru dætur okkar og synir sem fara í landsliðsbúninginn hverju sinni. Það var gaman að upplifa hve margir komu að horfa á og styðja liðið í kvöld.

Þegar ég var lítill átti ég vin sem bjó í næstu blokk og pabbi hans var dómari.  Þeir feðgar buðu mér stundum með sér á landsleiki.  Það fannst mér mögnuð upplifun og þessir landsleikir lifa ennþá sterkt í minningunni og höfðu mjög mótandi áhrif á mig.  Þar sá ég hetjur og fyrirmyndir mínar á knattspyrnuvellinum sem hvatti mig áfram í fótboltanum.  Ég reyndi að læra af þeim bestu.  Þegar ég las pistilinn sem Edda Garðarsdóttir  sendi frá sér í dag rifjaðist þetta upp fyrir mér.  Ég læt því pistilinn hennar Eddu fylgja hér með því hún segir miklu betur frá þessu en ég og þetta eru flott lokaorð því eins og Edda er ég farinn til Úkraínu með kvennalandsliðinu.

Ég vonast til að sjá ykkur öll á kvennalandsleiknum Ísland-Úkraína, 25. október næstkomandi á Laugardalsvelli.  Þar á kvennalandsliðið möguleika á að tryggja sig inn í lokakeppni EM sem fer fram í Svíþjóð á næsta ári.  Mikið rosalega væri gaman að sjá þig á vellinum með dætur þínar og syni, öskra þig hása(n) með teppi og kakóbrúsa.  Það verður íslenskt veður  en við erum jú íslendingar og eigum að þola það.   Ég hlakka til að sjá þig.  Áfram Ísland!


Siggi Raggi

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. No Comments

Sigurvegarinn kemur ekki alltaf fyrstur í mark

Sigurvegarinn kemur ekki alltaf fyrstur í mark…

Hér er annað mótiverandi vídeó sem ég bjó til fyrir kvennalandsliðið í fótbolta…

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. 1 Comment