Velkomin

Undanfarin ár hef ég haldið fyrirlestra um hvað þarf til að ná árangri fyrir fjölmörg fyrirtæki, íþróttahópa, starfsmenn, stjórnendur, landslið, afrekshópa, félög o.s.frv.  Nær undantekningarlaust hefur fyrirlestrunum mínum verið mjög vel tekið og það hefur verið gaman og gefandi að tala við ólíka hópa um þetta áhugaverða efni.  En það sem hefur klárlega vantað er aðgangur að vönduðu efni, greinum og fræðslu um hvað þarf tl að ná árangri.  Ég hef fundið fyrir miklum áhuga frá fólki í kjölfar fyrirlestranna á að sækja sér frekari þekkingu á þessu sviði.  Ég ákvað því að búa til þessa síðu.

Á þessari síðu er það ætlun mín að miðla af þekkingu, reynslu og skoðunum mínum til að hjálpa fólki að að ná betri árangri í því sem þau vilja ná árangri í. Mér hefur fundist vanta þennan vettvang á Íslandi.  Þó allir vilji ná árangri er hver og einn að pæla í því í sínu horni og enginn sem ég veit um að skoða þetta nógu markvisst.  Þessi skrif eru því tilraun til þess að opna þá umræðu.

En til að ég byrji á að kynna mig þá er ég íþróttafræðingur að mennt og hef lokið mastersgráðu í æfinga- og íþróttasálfræði frá University of North Carolina at Greensboro.  Í námi mínu í íþróttasálfræði lærði ég margt hagnýtt sem ég hef reynt að miðla í gegnum tíðina til íþróttafólks, þjálfara og fyrirtækja.  Þetta hef ég gert fyrst og fremst með öflugu fyrirlestrahaldi.  Í dag starfa ég sem fræðslustjóri Knattspyrnusambands Íslands og A-landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu ásamt því að halda fyrirlestra.

Ég lék sem atvinnumaður í knattspyrnu í Englandi og Belgíu í nokkur ár ásamt því að leika á Íslandi með KR, ÍA, Þrótti og Víkingi.  Ég lék einnig 4 ár í Bandaríkjunum á skólastyrk.  Ég hef einnig lokið við UEFA Pro Licence þjálfaranám frá Knattspyrnusambandi Englands sem er æðsta viðurkennda þjálfaramenntun í knattspyrnu í Evrópu.

Af hverju nær sumt fólk betra árangri en annað?

Er það meðfæddur hæfileiki eða áunnin færni sem skiptir mestu máli í að ná árangri?

Hversu miklu máli skiptir þjálfunin, aðstaðan, samherjar þínir, mótherjar þínir, foreldrar þínir, líkamlegir og andlegir eiginleikar þínir í að ná árangri?

Hvaða aðferðir get ég notað og hvaða aðferðir hafa aðrir notað sem hafa náð árangri?

Þetta og margt fleira er það sem þessi síða mín snýst um.  Það er mjög gefandi  að vinna að því að hjálpa fólki að ná árangri og sjá það uppskera árangur erfiðisins.   Það er tilfinning sem flestir þjálfarar, kennarar og foreldrar kannast við og eitthvað sem ég hef verið svo heppinn að fá að taka þátt í í mínu lífi og starfi.  Ef þú vilt panta fyrirlestur hjá mér fyrir hópinn þinn eða fyrirtækið þitt, hafðu þá samband.  Vonandi verðið þið ánægð með síðuna því hér er ætlunin að búa til flotta síðu þar sem hægt verður að sækja sér þekkingu um hvað þarf til að ná árangri.

Það er einlæg von mín að siggiraggi.is hjálpi þér að skara framúr í því sem þú tekur þér fyrir hendur!

Siggi Raggi / siggiraggi73@gmail.com, sími 848-8040. Claudius