How many of your players have a trick?

Fyrir 8 árum síðan ferðaðist ég til Lilleshall á Englandi og hélt þar þjálfaranámskeið á vegum KSÍ fyrir marga af fremstu knattspyrnuþjálfurum Íslands á þeim tíma.  Við undirbúning námskeiðsins setti ég mig í samband við Howard Wilkinson hjá enska knattspyrnusambandinu og bað hann um að mæla með fyrirlesurum á námskeiðið okkar.  Hann mælti með 60 ára reynslubolta sem hafði gríðarlega mikla þjálfunarreynslu og hét Mick Hennigan. Ég kunni engin deili á Mick önnur en að hann var að þjálfa hjá Rotherham en treysti innsæi Howards.  Kvöldið áður en Mick átti að kenna á námskeiðinu hitti ég hann á herberginu hans og ætlaði að fara yfir á 5 mínútum skipulag kennslunnar, kynna mig og svo halda mína leið.

En þegar ég settist niður og spjallaði við Mick sá ég að þetta var klár karl sem hafði frá ótrúlega mörgu áhugaverðu að segja.  Hann var algjör viskubrunnur og ég lærði mjög mikið af því að spjalla við hann en einkum af því að hlusta.  Það sem átti að vera 5 mínútna spjall breyttist í margra klukkutíma djúpar samræður um fótbolta og þjálfun.  Eitt er mér þó minnistæðast af því sem hann sagði og það hef ég rifjað upp reglulega síðan en það var þetta:

Mick spurði mig. “Hvað hafa meistaraflokksleikmenn í fótbolta eytt mörgum klukkutímum í að æfa fótbolta”? Ég svaraði einhvern veginn á þá leið kannski að jafnaði 5x í viku í kannski 15-25 ár, (mörg þúsund klukkurtímar af æfingum undir handleiðslu hæfra þjálfara).

Þá spurði Mick mig að þessu: “How many of your players have a trick?”  Ég skildi ekki spurninguna svo hann útskýrði fyrir mér að þrátt fyrir að allir fótboltamenn í meistaraflokki hafi gengið í gegnum mörg þúsund klukkutíma þjálfun og kennslu í knattspyrnu ásamt því að hafa eytt ómældum tíma í að æfa sig sjálfir með bolta að þá eru það sjaldnast fleiri en 1-2 leikmenn í hverju liði sem ráða við það að vera framúrskarandi í að leika á mótherja í stöðunni 1 á móti 1.  Er það ekki alveg hreint magnað?  Þetta er nefnilega hárrétt tölfræði hjá honum að mínu mati.

Hver er ástæðan?  Eru þjálfarar svona lélegir að þeir geta ekki kennt nógu mörgum leikmönnum þessa færni?  Eða er þetta svona erfið færni að læra?  Eru kannski fleiri leikmenn með þessa færni en þora ekki að nota hana af ótta við að missa boltann, af ótta við að vera skammaðir fyrir það, af ótta við að mistakast og vera öðruvísi en hinir sem senda allir á næsta mann?  Gleymdum við að kenna fótboltaleikmönnunum okkar hvernig á að byggja upp gott sjálfstraust, að hafa trú á eigin getu og þora að leika á menn?  Allt andlegir eiginleikar.

Ég rifja þetta oft upp.  Málið er að langflestir verða bara meðalgóðir í því sem þeir taka sér fyrir hendur.  Langflestir eru Meðal-Jónar.  Kannski örlítið betri en það en samt ekki miklu betri og þó að þú hafir eytt mörg þúsund klukkutímum í æfingar í einhverju er engan veginn víst að þú verðir framúrskarandi í því.  Það eru í raun alveg ótrúlega fáir sem verða framúrskarandi í því sem þeir taka sér fyrir hendur.  Af hverju er það?  Hvað einkennir þá sem verða framúrskarandi, hvað gerir þá svona góða?

Það er spurningin sem ég leita svara við.

Ein pæling í lokin.  Þeir sem eru framúrskarandi góðir í stöðunni 1 á móti 1 sóknarlega eru eftirsóttustu og dýrustu leikmenn heims, Messi, Ronaldo o.s.frv..  Þeir eru öðruvísi, þeir geta breytt leiknum og gert gæfumuninn.  Þeir hafa byggt upp færni sem afskaplega fáir hafa og það er alltaf verðmætt.  Getur þú byggt þér upp svoleiðis færni á þínu sviði?  Þarf ekki að vera í fótbolta.  Af hverju í ósköpunum banna þjálfarar leikmönnum sínum í fótbolta oft að einleika?  Ef við steypum alla í sama mót og notum alltaf sömu uppskriftina í þjálfun munum við alltaf baka sömu kökuna og fá upp eins leikmenn.

Nú skaltu taka fótboltann út úr dæmisögunni hér að ofan og sjá hvort hún tengist ekki á sama hátt lífi þínu og því sem þú ert að fást við, vinnunni þinni, náminu þínu o.s.frv.

Gangi þér vel að verða framúrskarandi í því sem þú tekur þér fyrir hendur og vertu einn af “leikmönnunum sem eiga sér trick” og ef þú ert kennari, þjálfari, foreldri eða uppalandi getur þú haft stórkostleg áhrif í að byggja upp næstu kynslóð á þann hátt.

Siggi Raggi

 

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. No Comments

Litli trommarinn

Í framhaldinu af síðasta pistli sem hét “Finndu það sem þú elskar að gera” fékk ég áhugaverðan póst sem ég fékk leyfi til að birta hér að neðan:

“Frábær pistill Siggi Raggi…takk fyrir :)
Hef svipaða sögu að segja af litlum tónlistarmanni…
Hann 8 ára gamall var búinn að tromma nánast frá fæðingu, svo eftir 2 vetra blokkflautunám sem var skylda þá stefndi hugurinn á trommurnar. Í tónlistarskólann var arkað til að skrá kappann en þá var svarið…iss hann er alltof ungur til að læra á trommur…kemur ekki til með að hafa neitt vald á kjuðum svona ungur og jarí jarí jarí…
Ok…þá var ákveðið að skrá hann á píanó. Hljóðfæri keypt og svo hófst námið…
Lítill áhugi…þurfti að minna hann á að æfa sig, minna hann á að fara í tíma og svo framv.
Eftir veturinn hugsaði ég…þetta gengur ekki, annað hvort fær drengurinn að læra á það sem hann þráir mest eða við getum gleymt tónlistarnámi. Hann sækir síðan um á sitt draumahljóðfæri þrátt fyrir “ráðleggingar” skólastjórans. Síðan hefur aldrei þurft að minna hann á að æfa sig, mæta í tíma né stúdera sitt nám ;)
Hann er búinn að læra allt á sitt hljóðfæri sem hægt er á Íslandi í dag og hugurinn stefnir lengra….
Ástríðan verður að vera til staðar í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur…það er bara þannig :)
Gangi þér áfram sem best…ert frábær !!”

Því má svo bæta við að litli trommarinn er orðinn stór í dag og heitir Þorvaldur Halldórsson og er hinn frábæri trommuleikari hljómsveitarinnar Valdimar sem er ein heitasta hljómsveitin á Íslandi í dag.  Snilli hans á trommurnar má heyra vel hér að neðan.

 

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. No Comments

Finndu það sem þú elskar að gera

Þegar ég var 15 ára nemandi í Hólabrekkuskóla var kominn tími til að velja mér hvaða framhaldsskóla mig langaði í.  Eldri systir mín var í Verzló og þangað fóru góðir nemendur sem vildu læra  viðskiptatengdar greinar og störfuðu svo á því sviði eftir útskrift.  Ég var ekki með sterka skoðun á því 15 ára gamall í hvaða framhaldsskóla mig langaði mest  til að fara í en mig langaði mest til að verða fótboltaþjálfari þegar ég yrði stór. Mamma og pabbi sögðu að það væri illa launað starf og maður þyrfti ekki að læra neitt til þess að verða fótboltaþjálfari og ég þyrfti einhverja  góða og haldbæra menntun sem myndi gefa mér góð laun í framtíðinni svo ég hlustaði á hvaða mamma og pabbi og eldri systir mín sögðu við mig.  Þau sögðu mér öll að fara í Verzló  enda mjög góður skóli.  Verzló var einn af 2 bestu framhaldsskólum landsins ásamt MR og er það eflaust ennþá.  Framtíð mín var því björt eða hvað?

Ég var með mjög góðar einkunnir úr grunnskóla og komst því inn í Verzló og hóf þar nám.  Eftir fyrstu önnina í skólanum var ég með 8.0 í meðaleinkunn sem þykir ágætis einkunn.  Það var þó töluverð lækkun á einkunninni minni úr grunnskóla.  En eftir því sem leið á námið mitt fór einkunnunum mínum að hraka frekar og ég missti algjörlega áhugann á náminu.  Ég hafði engan áhuga á að læra það sem var kennt í skólanum og hreinlega kveið því að mæta í skólann á hverjum degi.  Eftir tvö ár af vanlíðan í skólanum hafði ég fengið nóg.

Svo í fyrsta skipti í lífinu settist ég niður og spurði mig hvað mig langaði til að læra og gera í lífinu.  Ég ætlaði að taka ákvörðun um það sjálfur.  Það hafði ekkert breyst að mig langaði mest að verða þjálfari svo ég skipti um skóla og fór að læra íþróttafræði í FB.  Ég fékk strax mikinn áhuga á náminu og mér gekk mjög vel í skólanum, tók 25 einingar held ég síðustu önnina, fékk að taka áfanga utanskóla og var með frjálsa mætingu í einhverjum tímum því ég var með mjög góðan námsárangur.  Ég hlakkaði til að fara í skólann á hverjum degi, námið sem hafði verið mér kvöl og pína í 2 ár var ekki lengur nám í mínum augum, mig langaði að lesa kennslubækurnar og las þær jafnvel allar löngu áður en ég átti að vera búinn með þær.  Ég dvaldi lengur í skólanum í frjálsum tímum, tók aukaáfanga sem ég hefði ekki þurft að taka en mig langaði til að taka og svona mætti telja lengi áfram.

Hvað lærði ég af þessari lífsreynslu?  Jú, finndu það sem þú elskar að gera og þá verður þú miklu líklegri til að ná árangri á því sviði.  Enginn veit jafn vel og þú hvað þú elskar að gera og því þarftu að hlusta á þína innri rödd og hafa kjark til að fara þá leið þótt hún sýnist öðru fólki ekki eins eftirsóknarverð.  Þú þarft nefnilega að lifa með þeim ákvörðunum sem þú tekur í lífinu og lífið þitt verður miklu skemmtilegra ef þú ert að gera það sem þú elskar að gera.

Um áramótin hitti ég aftur yfirmann hjá fyrirtæki sem ég hélt eitt sinn  fyrirlestur fyrir.  Í fyrirlestrinum hafði ég hvatt fólk til að gera það sem það elskar að gera í lífinu því það myndi skila þeim mestu lífsfyllingunni og besta árangrinum. Yfirmaðurinn sagði mér að í kjölfar fyrirlestursins hefði starfsfólk komið til hennar og sagt upp í vinnunni og ákveðið að elta frekar drauma sína og ástríðu, gera það sem hjarta þeirra sagði þeim, gera það sem  þau elska að gera.  Fyrir mér get ég ekki fengið meira hrós sem fyrirlesari – að hafa snert líf fólks það mikið með orðum mínum að það breytti lífi þeirra til hins betra.

Finndu það sem þú elskar að gera og hafðu kjark til að fylgja því eftir er eitt besta ráð sem ég get gefið þér í lífinu.

Siggi Raggi

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. 2 Comments

Hvernig á að búa til atvinnumann í knattspyrnu?

Hér koma góð ráð frá mér um hvernig á að búa til atvinnumann í knattspyrnu, sumt byggt á rannsóknum, annað á minni reynslu í bráðum 11 ár sem fræðslustjóri KSÍ og svo persónulegum skoðunum mínum.  Ég spilaði sjálfur sem atvinnumaður í knattspyrnu í Englandi og Belgíu.  Mjög margir þjálfarar, félög, leikmenn og foreldrar velta þessu fyrir sér og hafa spurt um mitt álit svo hér koma mín ráð.

1. Byrjaðu að æfa knattspyrnu snemma:  Allir leikmenn gullaldarliðs U-21 landsliðs karla í knattspyrnu byrjuðu að æfa fótbolta á aldrinum 4-6 ára nema 2 leikmenn sem báðir voru markmenn og þeir byrjuðu 7 ára  og 8 ára.  Í dag byrja mörg börn að æfa knattspyrnu um 4-6 ára gömul.  Fræðslustjórar allra knattspyrnusambanda á Norðurlöndunum eru allir sammála um að ef drengur byrjar að æfa knattspyrnu eftir 12 ára aldur eru engar líkur á að viðkomandi nái í fremstu röð í knattspyrnu eða í A-landslið.  Ef þú ert ósammála máttu endilega benda mér á einhvern A-landsliðsmann í knattspyrnu sem byrjaði að æfa fótbolta eftir 12 ára aldur.  Ég spái því að þú finnir engan.  Það virðist aðeins öðruvísi með stelpur eins og er, þær geta byrjað aðeins seinna en strákar, kannski því það eru miklu færri stelpur að æfa fótbolta en strákar og því minni samkeppni, færri góðir leikmenn og því að mörgu leyti auðveldari leið á toppinn.  Sif Atladóttir A-landsliðskona byrjaði að æfa knattspyrnu 15 ára gömul en hafði samt frábæran íþróttabakgrunn úr öðrum greinum, hún er undantekningin sem sannar regluna.  Ég veit ekki um neinn strák.  Engan!

2.  Æfðu tækni mest af öllu: Lang mikilvægasti eiginleikinn til að ná langt í knattspyrnu er tækni. Besti aldurinn til að læra tækni í fótbolta er 8-12 ára.  Við skulum bæta 1-2 árum við sitt hvoru megin við þá tölu til að vera örugg því þroski barna er mismunandi hraður.  Á þessum aldri ættu allar æfingar að vera gerðar með bolta.  Já hver ein og einasta!  Tækni næst með því að vera alltaf að leika sér með bolta og herma eftir þeim bestu, æfa trixin þeirra, með því að vera alltaf í snertingu við boltann og að leika sér með hann.  Æfingar á þessum aldri eiga að vera í fámennum hópum, alltaf með bolta og þjálfarinn þarf að vera duglegur að leiðrétta ranga færni, kenna grunninn eins vel og hægt er, ár eftir ár.  Með því að kenna grunninn ertu að gefa leikmanninnum þau verkfæri sem hann þarf seinna meir til að ná langt í knattspyrnu kjósi hann að fara þá leið.  Leikmaður sem æfir ekki fótbolta á aldrinum 8-12 ára mun aldrei öðlast nægilega tæknilega færni til að ná framúrskarandi árangri í knattspyrnu.  Arsene Wenger stjóri Arsenal er sammála mér og það má sjá í myndbandinu hér að neðan.  Tækni er undirstaða alls árangurs í fótbolta.  Tækni er fegurð íþróttarinnar okkar.

Stelpur yrðu líka klárlega betri í fótbolta ef þær myndu æfa meiri tækni og leika sér meira með bolta þegar þær eru á næmisskeiði fyrir tækniþjálfun (8-12 ára plús 1-2 ár til viðbótar).  Því miður er mjög mikill munur á tæknilegri getu hja stelpum og strákum sem eru jafngömul á öllum aldursstigum hér á landi í knattspyrnu að mínu mati.  Munur sem þarf ekki að vera.  Skortur á tæknilegri getu er það sem hamlar okkur að ná ennþá lengra stelpumegin.

Bestu leikmenn heims og bestu lið heims byggja leik sinn upp á framúrskarandi tækni og já þeir eru líka gott íþróttafólk en líkamlegi þátturinn kemur meira inn þegar börnin verða eldri.  La Masia, knattspyrnuakademía Barcelona er sú besta í heimi og gerir engar fitness æfingar með leikmönnunum sínum til 16 ára aldurs, þar er allt gert með bolta.

3. Æfðu 2-3 íþróttagreinar til unglingsaldurs: Rannsóknir hafa gefið nokkuð misvísandi niðurstöður um hvort borgi sig að æfa bara eina íþróttagrein eða margar til að verða afreksmaður enda er ekki til ein formúla sem virkar á alla.  Þú finnur dæmi um afreksíþróttafólk sem hefur farið báðar leiðir.  Tiger Woods var t.d. alltaf bara í einni íþróttagrein og mörg dæmi mætti nefna úr hvorum hóp fyrir sig.  Þó margir í gullaldarliði U-21 landsliði karla hafi verið í 2-3 greinum voru það færri sem höfðu eingöngu æft fótbolta.  U-21 landsliðs strákarnir hættu þó flestir í öllu nema fótbolta á aldrinum 12-15 ára og allir voru hættir í öllu nema fótbolta við 16 ára aldur.   Þá þarf sérhæfing að hefjast.

Ég er á því að betri rök séu fyrir því að stunda fótbolta og svo til viðbótar 1-2 greinar sem innihalda fjölbreytta hreyfingu og finna má margar rannsóknir því til stuðnings þó það sé engin ein rétt leið til.  Fimleikar, frjálsar, körfubolti og handbolti eru dæmi um góðar greinar sem gætu passað vel með fótboltanum.  Veldu greinina sem barninu finnst skemmtileg.  Stefna KSÍ í þjálfun barna hvetur börn til að vera í fleiri en einni íþróttagrein og ég er algjörlega sammála því.  En ef einhver ætlar að ná í fremstu röð í knattspyrnu getur engin önnur grein komið í staðinn fyrir knattspyrnuna!  Þú getur semsagt ekki æft fimleika og frjálsar og sleppt fótbolta á aldrinum 8-12 ára og byrjað svo að æfa fótbolta 13 ára og ætlast til að ná í fremstu röð (þú getur það hugsanlega ef þú ert stelpa í dag en það er samt mjög ólíklegt því samkeppnin er að aukast þar líka).  Þú þarft að æfa fótboltann til að fá boltatæknina.  Hinar greinarnar gera leikmennina að betra íþróttafólki og hjálpa þeim að ná fjölbreyttari hreyfifærni og gera leikmennina betri alhliða.  Þær koma líka í veg fyrir of einhæft álag og geta mögulega minnkað brottfall, leiða og meiðsli.  Einbeittu þér eingöngu að knattspyrnu frá 15-16 ára aldri í allra síðasta lagi.

4. Mikilvægasta persónan sem stuðlar að því að leikmaðurinn nái árangri í knattspyrnu er leikmaðurinn sjálfur: Ransóknir og kenningar fræðimannsins Anders Ericson hjá Florida State University um hvað þurfi til að búa til afreksíþróttamann  benda til að afreksfólk þurfi að æfa markvisst að jafnaði í 10.000 klukkustundir til að ná framúrskarandi árangri í íþróttinni sinni.  Í sumum greinum þarf að æfa minna en þetta og í öðrum meira.  Ef þú æfir fótbolta 5x í viku í 90 mín í senn allan ársins hring tekur það þig 25 ár af æfingum að ná 10.000 klukkutímum.  Því þarf að byrja snemma og æfa mikið og lengi.  En til að geta æft svona mikið þarf leikmaðurinn sjálfur að hafa brennandi áhuga á knattspyrnu, með öðrum orðum hafa ástríðu fyrir fótbolta, annars gefst hann upp.  Góður þjálfari og stuðningur foreldra hafa pottþétt jákvæð áhrif en það getur enginn lagt svona mikið á sig af æfingum yfir svona langan tíma án þess að hafa ástríðu fyrir fótbolta.
Þegar skoðaður er námsárangur í skólakerfinu kemur í ljós að mikilvægasti þátturinn sem útskýrir námsárangur nemenda er í raun nemandinn sjálfur.  Þjálfarinn fylgist kannski með 20 leikmönnum á æfingu og því er erfitt að fylgjast með hverjum einstaka leikmanni.  Leikmennirnir sjálfir bera því ábyrgð á að leggja sig fram. Leikmaðurinn sjálfur er sá sem ákveður að mæta á æfinguna, hversu mikið hann leggur sig fram á æfingunni og hversu vel hann reynir að læra nýja færni eða endurtaka gamla færni.  Ef leikmaðurinn hefur ekki áhuga er vonlaust að ætla að kenna honum eitthvað.  Stærsti hlutinn af því að ná árangri býr því innra með leikmanninum sjálfum.

5. Næst mikilvægasta persónan er þjálfarinn:  Þjálfarinn er mikilvægari en aðstaðan, stærð félagsins, leikmennirnir sem þú æfir með líkt og rannsóknir á kennslu sýna að kennarinn er mikilvægari en kennslustofan, stærð skólans og samnemendur.  Þjálfari barns á að vera jákvæður, skemmtilegur, gefa af sér, hrósa mikið, bæta færni, vera kennari, vera þolinmóður, vera fyrirmynd, ná vel til barna, vera með fjölbreytta og skemmtilega leiki og gera allt með bolta.  Þjálfari unglinga þarf að hafa góða stjórn á hópnum, hann þarf að kenna leikfræði og með tímanum líkamlega og andlega þætti og smátt og smátt innleiða meiri afrekshugsun hjá leikmönnunum.   Hann þarf umfram allt að hafa hagsmuni unglingsins að leiðarljósi og vera kennari.  Allir þjálfarar þurfa að geta mætt leikmanninum þar sem hann er staddur, geta sagt honum til, hjálpað honum að taka framförum.  Í meistaraflokki er oft fjölbreyttari flóra af þjálfurum sem nota mismunandi stjórnunaraðferðir.  Á öllum aldri þarf þjálfarinn að hafa mikla þekkingu á íþróttinni, sérstaklega þegar ofar dregur.  Þjálfarinn ætti að hafa lokið við þjálfaramenntun og það er ekki verra að hann hafi sjálfur náð langt í íþróttinni en þó er það ekki endilega bráðnauðsynlegt.  Þjálfarar geta byggt upp einstaklinga, búið til rétt umhverfi fyrir leikmenn til að vaxa og þroskast í, og hjálpað leikmönnum að bæta færni.  Góður þjálfari er lykilatriði ef ætlunin er að ná langt.  Góður þjálfari er því fjárfesting fyrir íþróttafélögin.  Góði þjálfarinn er ekki endilega þjálfarinn sem vinnur alla titlana í yngri flokkum samt.  Það er ekki besti mælikvarðinn.

6. Foreldrastuðningur er mikilvægur:  Nær allir leikmenn A-landsliðs kvenna hafa fengið frábæran stuðning frá sínum foreldrum.  Foreldrar þeirra ferðast á milli landa til að horfa á þær spila.  Foreldrarnir þeirra hafa verið tilbúnir að keyra dætur sínar jafnvel mörg þúsund kílómetra á hverju ári á æfingar.  Rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl milli áhorfs foreldra og hreyfingu barna.
Börn foreldra sem eru til staðar og mæta reglulega að horfa á æfingar eða mót,virðast hreyfa sig oftar og af meiri ákefð. 

Því miður hafa rannsóknir sýnt að stelpur fá minni stuðning til íþróttaiðkunar en strákar frá foreldrum sínum.  Besti stuðningurinn er að elska börnin sín eins og þau eru, hjálpa þeim, fagna með þeim þegar vel gengur og styðja við bakið á þeim þegar illa gengur, vera öxlin sem þau geta grátið á þegar á þarf að halda, hvetja þau en ekki setja á þau pressu.  Algeng ástæða brottfalls úr íþróttum er of mikil pressa frá foreldrum um að ná árangri, vinna leiki og keppnir.  Auðvitað viljum við öll að börnunum okkar gangi vel en rétta leiðin er ekki að setja of mikla pressu um árangur.  Stuðningur er ekki það sama og fjarstýra börnunum sínum frá hliðarlínunni, stuðningur er ekki það sama og að finnast úrslit leiksins skipta öllu máli.  Hér má sjá öll góðu ráðin sem KSÍ ráðleggur foreldrum sem vilja styðja vel við börnin sín í knattspyrnunni.

Þetta er aðeins fyrri hluti pistilsins, því ég er með mörg önnur góð ráð.  Tékkið reglulega á www.siggiraggi.is og sjáið fleiri góð ráð til að búa til atvinnumann í knattspyrnu.  Hafið í huga að það tekur mörg ár að búa til atvinnumann í knattspyrnu og það er aðeins örlítil prósenta sem nær svo langt í íþróttinni.  Engu að síður getur bæði verið skemmtilegt og gagnlegt að velta fyrir sér leiðum til að ná árangri.

Siggi Raggi

Arsene Wenger – Hvernig býrðu til atvinnumann í knattspyrnu? from Siggi Eyjolfsson on Vimeo.

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. 1 Comment

Gleðilega hátíð!

Sæl öll,

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs.

Takk fyrir árið sem er að líða.  Ég vona að þið hafið haft gagn og gaman af þessari síðu.  Síðan hefur fengið rúmlega 42.000 heimsóknir á þessum 3 mánuðum c.a.  Viðtökurnar hafa því verið frábærar enda síðan hvergi auglýst.  Ég hef haft þann háttinn á að þegar ég hef sett inn nýjan pistil hef ég látið hann inn á facebook hjá mér og þaðan hefur hann spurst út og fólk deilt pistlunum ef því líkar við þá.

Það voru nokkrir pistlar sem vöktu mikla athygli á árinu.  Við reyndum að breyta heiminum og fengum fyrirtæki með okkur í lið í því og slógum áhorfendamet á kvennalandsleik í kjölfarið um 6.700 manns sáu stelpurnar okkar tryggja sig inn í lokakeppni EM.  Sá pistill var m.a. lesinn upp af þingmanni á Alþingi.

Á næsta ári vonast ég til að gera þessa síðu ennþá öflugri.  Til þess þarf ég að finna meiri tíma eða fá einhvern sem er klár á tölvur í lið með mér.  Eins er ætlun mín á næsta ári að bjóða upp á fleiri möguleika á fyrirlestrum og jafnvel halda námskeið en ég hef fengið fjölmargar svoleiðis fyrirspurnir.  Ég vil líka stækka síðuna en það verður að koma í ljós hvort ég finni tíma í það.

Það sem hefur verið hvað mest gefandi er þegar fólk hefur stoppað mig á förnum vegi og þakkað mér fyrir að búa til þessa síðu og skrifa pistlana.  Ungt íþróttafólk með metnað eru fastir gestir á þessari síðu.  Ég spái því að fyrsti pistill næsta árs muni vekja athygli en ég er langt kominn með hann enda ætla ég að hafa hann góðan og því gefa mér góðan tíma í undirbúning.

Markmiðið er ekki að skrifa pistla á hverjum degi heldur skrifa góða pistla sem nýtast fólki.  Ég er ekki að setja inn efni bara til að setja inn efni.

En aftur takk fyrir góðar viðtökur og gangi ykkur vel að ná árangri á nýju ári!

Siggi Raggi

Posted in Uncategorized by Siggi Raggi. No Comments