Töfrakorterið

Ég spilaði fótbolta í meistaraflokki frá 1992-2005.  Ég spilaði með KR, Víkingi, Þrótti og ÍA hér á Íslandi.  Sem atvinnumaður spilaði ég með Walsall og Chester í Englandi og Harelbeke í belgísku úrvalsdeildinni.  Alls voru þetta 14 keppnistímabil og ég spilaði því fótbolta með sennilega 200-300 mismunandi leikmönnum eða svo.  Ég spilaði með mörgum af bestu leikmönnum Íslands í gegnum tíðina.

Þegar ég lít tilbaka yfir ferilinn voru það samt ótrúlega fáir leikmenn sem æfðu aukalega.  Það kom nánast aldrei fyrir að einhver varð lengur eftir æfingu og æfði sig sjálfur eða mætti fyrr á undan hinum til að ná að æfa sig aukalega.  Ég gæti talið þá á fingrum annarrar handar.

Fyrir 2 árum tók ég viðtal við Gylfa Sigurðsson leikmann Tottenham því við hjá KSÍ vorum að gefa út “Tækniskóla KSÍ”.  DVD disk til að hjálpa strákum og stelpum að æfa sig sjálf aukalega.  Þegar ég spurði Gylfa af hverju hann væri svona góður í fótbolta sagði hann að síðan hann var lítill gutti mætti hann fyrr á æfingar eða var lengur sjálfur til að æfa spyrnur og sendingar.  Hann tók ekki langan tíma í þetta sagði hann, “svona korter fyrir eða eftir hverja æfingu”.  Korter er ekki mikill tími en ef þú leggur saman mörg korter færðu út fyrirbæri sem ég kalla “töfrakorterið”.

Ef þú æfir einhverja færni í 15 mínútur aukalega fyrir eða eftir æfingu og æfir 6 sinnum í viku gerir það nefnilega 90 mínútur á viku eða 6 klukkutímar á mánuði, það gerir 72 klukkutímar á ári eða 720 klukkutímar á 10 árum.  Ef þú æfir þig frá c.a. 10 ára aldri eins og Gylfi Sigurðsson hefurðu æft  spyrnur 720 klukkutímum lengur en hinir þegar þú verður tvítugur og verður því að jafnaði miklu betri spyrnumaður en aðrir.

Að vera afgerandi góður spyrnumaður er ein af ástæðum þess að Gylfi Sigurðsson skarar fram úr flestum öðrum sem knattspyrnumaður.  Hann var ungur farinn að taka aukaspyrnur, hornspyrnur og vítaspyrnur fyrir sín lið.  Hluti af ástæðunni er að hann nýtti sér “töfrakorterið”.

Vandamálið er að langflestir nenna ekki að æfa aukalega meira en hinir.  Enda segir Bob Bowman þjálfari Michael Phelps sundmanns og eins fremsta íþróttamanns allra tíma að eitt einkenni alla þá sem skara framúr: “þeir nenna að leggja á sig vinnuna sem aðrir fást ekki til að gera”.  Getur þú nýtt þér töfrakorterið til að ná betri árangri og aukinni færni?  Eða ertu hluti af þessum 99% sem nennir því ekki?

„Ég er vanur að æfa aukalega eftir hverja æfingu liðsins, stilli upp boltum og skýt á markið í 10 til 15 mínútur”  Gylfi Sigurðsson

Að lokum er hér frétt um einn af tveimur bestu knattspyrnumönnum í heimi sem fjallar um hvernig hann nýtir sér líka töfrakorterið.  Hann heitir Cristiano Ronaldo.

Gerðu töfrakorterið að reglu í þinni þjálfun ef þú vilt ná árangri.

Siggi Raggi

 

Leave a Comment