“Það er einhver að reyna að ná í þig frá Kína!”

Hvernig var að þjálfa fótbolta í Kína?  Þetta er spurning sem ég hef mjög oft fengið síðan ég flutti heim til Íslands.  Í stuttu máli var það mjög skemmtilegt og ótrúleg lífsreynsla en ég hef aldrei gefið mér tíma til að skrifa upp ferðasöguna um þetta ævintýri.  Mig langar að deila með ykkur þessu ævintýri og mun því skrifa ferðasöguna upp hér í nokkrum hlutum á næstunni.  Vonandi hafa einhverjir gaman af að lesa hana þó hún sé fyrst og fremst skrifuð upp fyrir mig sjálfan áður en sagan gleymist.

Skömmu fyrir jól 2016 fór ég að heilsa upp á gömlu samstarfsfélaga mína hjá KSÍ.  Einn þeirra, Þorvaldur Ingimundarson (maður sem myndast ótrúlega vel) sagði mér að einhver frá Kína væri að reyna að ná í mig.  Ég kannaðist ekki við að þekkja neinn í Kína þó að ég hafði reyndar farið í starfsviðtal þar ári áður fyrir starf A-landsliðsþjálfara kvenna en ekki fengið starfið.  En jú það kom í ljós að það var kínverji að reyna að ná í mig og hann spurði hvort ég hefði áhuga á að þjálfa lið Jiangsu Suning í Kína.  Þar sem ég var atvinnulaus eftir að hafa hætt störfum hjá Lilleström í norsku úrvalsdeildinni með Rúnari Kristinssyni þá var þetta tækifæri sem var þess vert að skoða.

Í byrjun janúar 2017 hringdi ég í Daða Rafnsson fyrrum yfirþjálfara Breiðabliks og sagði við hann “Daði þetta verður mjög skrýtið símtal.  Ertu til í að flytja með mér til Kína að þjálfa og þú hefur 1 dag til að svara”.  Daði var nýbúinn að frétta að hann ætti von á barni.  Stuttu seinna voru ég og Daði komnir í flugvél til Kína, þar sem við fórum í starfsviðtal og samningaviðræður í borginni Nanjing í einum af 5 höfuðstöðvum Suning fyrirtækisins.  Allt fór fram í gegnum túlk.  Ég og Daði áttuðum okkur ekki alveg á hvað þetta var stórt fyrr en yfirmaðurinn sagði að við gætum ekki unnið fyrir Suning nema að fara fyrst í kynningu á starfsemi Suning sem allt starfsfólk fyrirtækisins þarf að fara í gegnum.  Við fórum því inn í risastóra byggingu stutt frá þar sem við fengum kynningu á hversu viðamikil starfsemi Suning er og hve stórt fyrirtækið er.  Ég veit ekki hvor gapti meira ég eða Daði.  Við sáum m.a. að hjá Suning starfa yfir 200.000 manns og það er eitt af stærstu fyrirtækjum Kína.  Við áttuðum okkur líka betur á starfinu sem við vorum komnir í aðeins seinna þegar Fabio Capello var ráðinn þjálfari karlaliðsins.

Ég verð líka að viðurkenna að ég áttaði mig engan veginn á því heldur hvað Kína er fjölmennt land eða hve menningin og hugsunarhátturinn eru allt öðruvísi en á Vesturlöndum, það er eitthvað sem ég átti eftir að læra með tímanum.  Í samningaviðræðunum var það bara ég sem talaði því ég var head coach eða aðalþjálfarinn.  Þannig spurði yfirmaðurinn mig, er ásættanlegt fyrir aðstoðarþjálfarann þinn að fá x krónur í laun?  Ég sneri mér þá að Daða sem sat við hliðina á mér og spurði “ertu sáttur við það?  Daði sagði “já” og þá sagði ég “já hann er sáttur við það” við yfirmanninn.

Kína er mjög stéttaskipt land og mikið af venjum og siðum sem okkur finnast kannski skrýtnar en hafa tilgang þegar maður skilur betur hvað liggur að baki og hvernig þjóðfélagið er byggt upp.  En þarna gerðum við 2 ára samning, án umboðsmanns (ég las mér reyndar mjög mikið til um samningagerð í Kína áður en ég fór til Kína).

Við fórum svo og horfðum á æfingu hjá Jiangsu Suning kvennaliðinu.  Tempóið á æfingunni var lítið, en nokkrir leikmenn sem litu vel út.  Enginn leikmaður talaði ensku.  Það voru 5 markmenn á æfingunni og um 60 leikmenn á samningi.  Það voru nokkrir kínverskir þjálfarar að þjálfa liðið.  Allir leikmennirnir bjuggu á heimavist þar sem æfingavellirnir voru, þar var líka mötuneyti, íþróttasalur, sundlaug, lyftingasalur, frábær keppnisvöllur, gervigras og 8 æfingavellir.  Sumir leikmennirnir höfðu búið þarna í allt að 15 ár, tveir leikmenn saman í herbergi.

Í Kína er mjög mikill fókus á að æfa mikið.  Heilt yfir finnst mér kínverjar leggja alltof mikla áherslu á magn æfinga fremur en gæði.  Þannig er hinn týpíski kínverski þjálfari með tvær æfingar á dag í 2 tíma í senn.  Þá er ekki hægt að hanka þjálfarann á að hann láti leikmenn ekki æfa nógu mikið.  Þessu breyttum við fljótt í að æfa að jafnaði einu sinni á dag en á undirbúningstímabilinu æfðum við 2-3 daga í viku 2x á dag og hina dagana 1x en reyndum alltaf að hafa 1 frídag í viku.

Við höfðum stuttan tíma til að finna út hverjir væru 25 bestu leikmennirnir af þessum 60 því við vorum að fara beint í mót með liðið sem var haldið í borginni Kunming en þangað fara öll kínversku kvennaliðin í mánuð á hverju ári í æfingabúðir og spila mót sem er kallað National tournament þar sem spilað er í riðlum og svo 8, 4 liða og úrslitaleikur.

Við vorum eftir viku í Kína komnir til borgarinnar Kunming með liðið okkar en Kunming er í um 2.000 metra hæð ef ég man rétt og þar á svæðinu búa yfir 10 milljón manns.  Flugstöðin var ógnarstór og mjög mikið af fólki alls staðar.  Ég hafði aldrei áður farið í æfingabúðir í 1 mánuð.  Maturinn var alls ekki góður og kínverjarnir buðu upp á gos með matnum.  Ég átti eftir að kynnast að í Kína er sums staðar borðaðar engisprettur, hundar, sporðdrekar og alls konar matur ef mat skyldi kalla.  Áður en ég fór til Kína var það matur sem ég hafði mestar áhyggjur af og mengun.  Bæði var svo miklu betra en ég þorði að ímynda mér.  Leikmennirnir komu alltaf með heitt vatn á brúsa með sér á æfingu og því náði ég ekki að breyta.  Þær drukku ekki nóg vatn og vildu aldrei kalt vatn.  Það er rosalega erfitt að breyta menningu og stundum þarf maður að breyta sjálfum sér.  Það lærði ég í Kína.  Það góða við að öll liðin voru í Kunming var að að við gátum séð öll liðin í Kína spila og æfa á sama stað og sáum því hvernig liðið okkar var miðað við mótherjana.

Lið Jiangsu Suning hafði næstum fallið úr deildinni árið áður og lenti því í að spila umspilsleik um fall og var 1-0 undir í þeim leik en náðu að skora 2 mörk í uppbótartíma til að bjarga sér.  Leikmannahópur Jiangsu Suning var sá sami og árið áður en okkur var tilkynnt með mjög stuttum fyrirvara að við gætum fengið 2 útlendinga til liðs við okkur.  Fyrirvarinn var mjög stuttur og fyrir valinu urðu Gabi Zanotti miðjumaður og landsliðskona Brasilíu sem hafði spilað með Dalian, sem voru tvöfaldir meistarar frá árinu áður og Isabell Herlovsen, framherji sem við keyptum frá Lilleström og slógum við þar með norska félagsskiptametið.  Okkur var tjáð að við yrðum að vinna titilinn annars yrðum við reknir.  Markmiðin voru sett inn í samninginn og við áttuðum okkur strax á að okkar starf snerist um að vinna titil annars yrðum við reknir.  Þannig er það í Kína, ekki mikil þolinmæði.

Nánast enginn talaði ensku og nánast öll okkar samskipti við leikmenn þurftu að fara fram í gegnum túlk.  Við fengum frábæran túlk sem heitir Frank.  Stelpurnar kölluðu hann “Panga” sem þýðir bróðir Pan en Pan var kínverska eftirnafnið hans.  Það er gert af virðingu og í Kína er virðing mjög mikilvæg.  Frank sá um okkur útlendingana fjóra.  Hann var túlkur, bílstjórinn okkar, hjálpaði okkur að flytja inn í íbúðirnar okkar, fyllti meira að segja á símana okkar.  Hann vann óhemju mikið og eina vikuna hafði hann unnið yfir sig og varð hreinlega veikur og skipað að hvíla sig.  Þá réði klúbburinn bílstjóra og þá gat Frank einbeitt sér að því að vera túlkur.  Frank varð mér svo mikilvægur að ég heimtaði að hann kæmi með mér þegar ég tók við kínverska kvennalandsliðinu en meira um það seinna.

Svo þarna vorum við í æfingabúðunum í Kína, nýbúnir að læra nöfnin á 60 leikmönnum, ég og Daði og spurðum okkur sjálfa – Hvað erum við eiginlega búnir að koma okkur út í???  En ævintýrið okkar var bara rétt að byrja…

Mig hafði alltaf langað til Asíu en hafði aldrei komið þangað áður. Það var mögnuð upplifun að sjá Kínamúrinn, ótrúlegt mannvirki.
Lið Jiangsu Suning eftir deildarsigur á Kínameisturum Dalian.
Leave a Comment