Mamma, pabbi og stórkostlegar tilfinningar

Ég hef verið landsliðsþjálfari í rúm 6 ár og hef valið um 50 leikmenn í landsliðið á þessum tíma.  Til að velja þessa 50 leikmenn hef ég mætt á nokkur hundruð leiki hjá félagsliðunum til að horfa á þær spila.  Á hverjum einasta leik hitti ég mömmur og pabba stelpnanna.  Þau eru mætt hvernig sem viðrar eða árar að styðja við bakið á dætrum sínum.  Stuðningsmenn númer 1 og öxlin til að gráta á þegar gengur illa.  Í flestum tilvikum hefur stuðningur þessara foreldra ekki bara byrjað þegar stelpurnar komust í A-landsliðið heldur byrjaði hann þegar þær voru litlar.

Einhvern tímann byrjuðu nefnilega stelpurnar þeirra að æfa fótbolta og síðan eru að baki mörg þúsund skutl á æfingar, þvottur á æfingafötum, fjáraflanir í utanlandsferðir, sjálfboðaliðastörf fyrir félagið og flokkinn þeirra, greiðsla á æfingagjöldum, kaup á æfingafatnaði og ómældum pörum af takkaskóm.

Foreldrar Dagnýjar Brynjarsdóttur landsliðskonu létu sig þannig ekki muna um að skutla stelpunni sinni frá Hellu til Reykjavíkur á æfingar hjá Val nokkrum sinnum í viku í meira en heilt ár þegar Dagný var ung og efnileg stelpa úr sveitinni og var ekki komin með bílpróf sjálf því hvað gerir maður ekki fyrir stelpuna sína til að styðja hana í að verða betri og ná árangri?  Hvernig skyldi foreldrum Dagnýjar hafa liðið í stúkunni á síðasta landsleik þegar Dagný skoraði úrslitamarkið í 3-2 sigri Íslands á Úkraínu fyrir framan 6.647 stuðningsmenn A-landsliðs kvenna á Laugardalsvelli og tryggði þar með Íslandi sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins?  Stolt?  Gæsahúð? Gleði? Eða tilfinningar svo stórkostlegar að það er erfitt að gefa þeim nafn?

Sara Björk Gunnarsdóttir  landsliðskona sleit krossbönd þegar hún var unglingur og var meira og minna frá knattspyrnuiðkun í 2 ár.  Það hlýtur að hafa verið henni mjög erfiður tími því fáum finnst jafn gaman að æfa og keppa.  Pabbi Söru studdi endalaust við bakið á henni með því að fara með henni út að hlaupa og leika sér með bolta með henni hvenær sem hún óskaði eftir því.  Endalaust oft hef ég hitt mömmu og pabba Söru á leikjum hennar.  Aðspurð segir Sara eins og margar af stelpunum í landsliðinu að fyrirmyndir hennar eru einmitt foreldrarnir.  Hvernig skyldi foreldrunum hafa liðið eftir þennan erfiða tíma þegar Sara Björk var svo valin í A-landsliðið skömmu eftir að hún byrjaði að æfa aftur aðeins 16 ára gömul?  Já hver getur útskýrt tilfinninguna að sjá barnið sitt í landsliðsbúningnum á þjóðarleikvangnum að fara að spila landsleik fyrir hönd Íslands?  Er það stolt? Gæsahúð? Gleði? Eða tilfinningar svo stórkostlegar að það er erfitt að gefa þeim nafn?

Svona sögur eru ekki undantekningin heldur dæmigerða sagan af þeim stuðningi sem stelpurnar í landsliðinu hafa hlotið frá mömmum sínum og pöbbum í gegnum knattspyrnuferilinn allan.  Þið mömmur og pabbar eigið alla mína virðingu og ég tek hatt minn ofan fyrir ykkur.  Án ykkar stuðnings ætti Ísland ekki heimsklassa landslið í fótbolta og ykkar stuðningur hjálpar liðinu okkar endalaust mikið.

Næsta sumar fara stelpurnar okkar í úrslitakeppni Evrópumóts A-landsliða kvenna í Svíþjóð.  Það er bara í annað skipti í sögunni sem Ísland mun leika í lokakeppni A-landsliða í knattspyrnu.  Hápunktur ferils hvers leikmanns í fótbolta er að vera fulltrúi þjóðarinnar á slíku augnabliki.  Ég veit að þar mun ég sjá ykkur mömmur og pabbar þar sem þið verðið mætt í stúkuna til að styðja við bakið á stelpunum ykkar.  Ég vona af öllu hjarta að þar munið þið upplifa stolt, gæsahúð, gleði og tilfinningar svo stórkostlegar að það verður erfitt að gefa þeim nafn.


 

Siggi Raggi .

5 Responses to "Mamma, pabbi og stórkostlegar tilfinningar"

  • Gígja Þórðardóttir says:
  • Þóra says:
  • SólveigSvavarsdóttir says:
  • Eygló says:
  • Þórey Björk says:
Leave a Comment