Hvað einkennir afreksfólk? Roy Keane vs. Paul Scholes

Fyrir nokkrum árum var ég á Pro licence þjálfaranámskeiði hjá enska knattspyrnusambandinuog með mér á námskeiðinu var enginn annar en Manchester United goðsögnin Roy Keane.  Roy átti frábæran feril  og spilaði auðvitað með mörgum stórkostlegum leikmönnum hjá Manchester United á tímabili þar sem Manchester United var eitt allra besta félagslið heims.  Einn daginn á námskeiðinu var Roy Keane spurður hver var besti leikmaðurinn sem hann hafði spilað með.  Svarið hans var stutt og laggott – Paul Scholes.  Roy lýsti Paul Scholes sem hinum fullkomna miðjumanni.  “Hann hefur allt” sagði hann, frábærar sendingar, frábær skotmaður, ótrúlegt auga fyrir leiknum, hann skorar mörk, hann er duglegur, harður af sér í návígjum, sennilega mest alhliða leikmaður sem fyrirfinnst”.

Þetta svar frá Roy Keane kom mér á óvart, ég vissi auðvitað að Paul Scholes væri góður leikmaður en ég bjóst við að hann teldi marga aðra vera betri.  Paul Scholes hafði aldrei verið áberandi leikmaður fannst mér, hann var lítið í fjölmiðlum, þögull, feiminn, fjölskyldumaður sem mætir á æfingu og fer svo heim og leikur sér við börnin sín.  Ekki þessi dæmigerða “stjarna”.  En eftir þetta fór ég að stúdera Paul Scholes betur og hvernig hann spilar fótbolta.

Paul Scoles er nefnilega einn allra besti sendingamaður sem fyrirfinnst í sögu knattspyrnunnar.  Bestu sendingamenn heims tala um hann sem besta miðjumann sinnar kynslóðar og litu upp til hans.  Hér má sjá vídeó með frábærum sendingum Scholes í gegnum tíðina með Manchester United.  Ótrúleg sendingageta, sendingar í öllum regnbogans litum.  Ef þú ert að æfa eða hefur skilning á fótbolta þá sérðu þarna listamann sem hefur náð fullkomnu valdi á sendingum.  Hér er annað vídeó þar sem sést hversu stórkostlegur skotmaður hann er.  Það er líka áhugavert að skoða hvað aðrir bestu leikmenn heims í knattspyrnu segja um Paul Scholes.  Leikmenn eins og Zidane, George Best, Pele, Xavi, Iniesta, Messi o.s.frv.  Það má sjá hér í þessu vídeói. 

En af hverju set ég þetta inn undir kafla sem heitir  “Hvað einkennir afreksfólk?”  Jú, Paul Scholes og Roy Keane eru sennilega ólíkustu persónuleikar sem fyrirfinnast en báðir frábærir knattspyrnumenn.  Keane algjörlega ófeiminn og segir umbúðalaust sínar skoðanir og líður vel í sviðsljósinu og er fyrirliðatýpan, en Scholes er meira inni í sér, óframfærinn, líður illa í sviðsljósinu, blandar lítið geði við aðra, veitir sjaldan viðtöl, er lýst sem einfara og vill helst vera heima hjá sér þegar hann er ekki í fótbolta.  Þetta eitt segir okkur að ein persónuleikaeinkenni umfram önnur eru ekki bráðnauðsynleg til að ná framúrskarandi árangri.  Það er til afreksíþróttafólk með mjög ólík persónuleikaeinkenni og því er hættulegt að ætla að velja út íþróttafólk á unga aldri út frá persónuleikaeinkennum.  Besta leikmanni heims í dag – Messi er t.d. lýst sem barnslega feimnum strák sem elskar að spila fótbolta.

Lærdómurinn er því þessi: Þú getur náð framúrskarandi árangri sama hvernig persónuleikaeinkenni þú hefur.

Siggi Raggi

p.s. Ef þú ert leikmaður í fótbolta, kíktu þá aftur á vídeóin af Paul Scholes og farðu svo út á völl og æfðu sendingarnar þínar!

Leave a Comment