Finndu það sem þú elskar að gera

Þegar ég var 15 ára nemandi í Hólabrekkuskóla var kominn tími til að velja mér hvaða framhaldsskóla mig langaði í.  Eldri systir mín var í Verzló og þangað fóru góðir nemendur sem vildu læra  viðskiptatengdar greinar og störfuðu svo á því sviði eftir útskrift.  Ég var ekki með sterka skoðun á því 15 ára gamall í hvaða framhaldsskóla mig langaði mest  til að fara í en mig langaði mest til að verða fótboltaþjálfari þegar ég yrði stór. Mamma og pabbi sögðu að það væri illa launað starf og maður þyrfti ekki að læra neitt til þess að verða fótboltaþjálfari og ég þyrfti einhverja  góða og haldbæra menntun sem myndi gefa mér góð laun í framtíðinni svo ég hlustaði á hvaða mamma og pabbi og eldri systir mín sögðu við mig.  Þau sögðu mér öll að fara í Verzló  enda mjög góður skóli.  Verzló var einn af 2 bestu framhaldsskólum landsins ásamt MR og er það eflaust ennþá.  Framtíð mín var því björt eða hvað?

Ég var með mjög góðar einkunnir úr grunnskóla og komst því inn í Verzló og hóf þar nám.  Eftir fyrstu önnina í skólanum var ég með 8.0 í meðaleinkunn sem þykir ágætis einkunn.  Það var þó töluverð lækkun á einkunninni minni úr grunnskóla.  En eftir því sem leið á námið mitt fór einkunnunum mínum að hraka frekar og ég missti algjörlega áhugann á náminu.  Ég hafði engan áhuga á að læra það sem var kennt í skólanum og hreinlega kveið því að mæta í skólann á hverjum degi.  Eftir tvö ár af vanlíðan í skólanum hafði ég fengið nóg.

Svo í fyrsta skipti í lífinu settist ég niður og spurði mig hvað mig langaði til að læra og gera í lífinu.  Ég ætlaði að taka ákvörðun um það sjálfur.  Það hafði ekkert breyst að mig langaði mest að verða þjálfari svo ég skipti um skóla og fór að læra íþróttafræði í FB.  Ég fékk strax mikinn áhuga á náminu og mér gekk mjög vel í skólanum, tók 25 einingar held ég síðustu önnina, fékk að taka áfanga utanskóla og var með frjálsa mætingu í einhverjum tímum því ég var með mjög góðan námsárangur.  Ég hlakkaði til að fara í skólann á hverjum degi, námið sem hafði verið mér kvöl og pína í 2 ár var ekki lengur nám í mínum augum, mig langaði að lesa kennslubækurnar og las þær jafnvel allar löngu áður en ég átti að vera búinn með þær.  Ég dvaldi lengur í skólanum í frjálsum tímum, tók aukaáfanga sem ég hefði ekki þurft að taka en mig langaði til að taka og svona mætti telja lengi áfram.

Hvað lærði ég af þessari lífsreynslu?  Jú, finndu það sem þú elskar að gera og þá verður þú miklu líklegri til að ná árangri á því sviði.  Enginn veit jafn vel og þú hvað þú elskar að gera og því þarftu að hlusta á þína innri rödd og hafa kjark til að fara þá leið þótt hún sýnist öðru fólki ekki eins eftirsóknarverð.  Þú þarft nefnilega að lifa með þeim ákvörðunum sem þú tekur í lífinu og lífið þitt verður miklu skemmtilegra ef þú ert að gera það sem þú elskar að gera.

Um áramótin hitti ég aftur yfirmann hjá fyrirtæki sem ég hélt eitt sinn  fyrirlestur fyrir.  Í fyrirlestrinum hafði ég hvatt fólk til að gera það sem það elskar að gera í lífinu því það myndi skila þeim mestu lífsfyllingunni og besta árangrinum. Yfirmaðurinn sagði mér að í kjölfar fyrirlestursins hefði starfsfólk komið til hennar og sagt upp í vinnunni og ákveðið að elta frekar drauma sína og ástríðu, gera það sem hjarta þeirra sagði þeim, gera það sem  þau elska að gera.  Fyrir mér get ég ekki fengið meira hrós sem fyrirlesari – að hafa snert líf fólks það mikið með orðum mínum að það breytti lífi þeirra til hins betra.

Finndu það sem þú elskar að gera og hafðu kjark til að fylgja því eftir er eitt besta ráð sem ég get gefið þér í lífinu.

Siggi Raggi

2 Responses to "Finndu það sem þú elskar að gera"

  • Gunnhildur says:
Leave a Comment