Jul 14
1
Ein grein eða margar fyrir barnið mitt? Hvernig nær það langt?
Þegar ég var lítill átti ég besta vin sem mátti aldrei koma að leika við mig eftir skóla fyrr en hann var búinn að æfa sig í klukkutíma á hljóðfærið sem hann var að læra að spila á. Þetta var regla hjá foreldrum hans. Honum fannst oft hundleiðinlegt að æfa sig og mér fannst það strangt hjá foreldrum hans en í dag er hann atvinnu tónlistarmaður, mjög eftirsóttur og spilar með bestu hljómsveitum landsins og elskar að spila á hljóðfærið sitt. Það var í upphafi kannski pressa frá foreldrunum að hann byrjaði að læra á hljóðfærið enda var annað foreldri hans tónlistarkennari. Þannig er þetta líka í íþróttum, í upphafi stjórna foreldrarnir eða geta haft mikil áhrif á hvaða íþróttagrein er æfð og hversu mikið börnin æfa sig eða hve margar greinar eru stundaðar. Innri áhuginn frá börnunum kemur aðeins seinna þegar færnin eykst. En hvort er þá betra að stunda eina grein eða margar ef ég vil hjálpa barninu mínu að ná langt?
Í umræðunni um það hvort sé betra að stunda eina íþróttagrein eða margar gleymist oft að velta upp göllum þess að stunda margar greinar og umræðan verður einsleit og án gagnrýni og horfir bara á kostina við það að stunda margar greinar og fólk heldur þá kannski að til að ná langt í íþróttum verði lausnin að stunda nógu margar greinar á barns- og unglingsaldri. Ég tek það fram að nú er ég að horfa á hvernig afreksíþróttamaður verður til og er því ekki að spá í þessa hluti út frá brottfalli o.s.frv. Margir afreksmenn í mörgum greinum hafa orðið afreksmenn en bara stundað eina íþróttagrein. Tiger Woods, Sara Björk Gunnarsdóttir, Jóhann Berg o.s.frv. voru bara í einni grein svo eru margir aðrir sem hafa stundað eina eða fleiri greinar með. Það er ekki búið að finna upp formúlu til að búa til afreksíþróttafólk.
Að ná langt í íþróttum er ekki það sama og æfa íþróttir svo þar erum við að bera saman epli og appelsínur, iðkendur og afreksfólk. Í rannsókn minni á gullaldarliðinu okkar í U21 landsliðinu sem nú er uppistaða A-landsliðs karla í fótbolta kemur eftirfarandi í ljós: Leikmenn U-21 landsliðsins byrjuðu nær allir á aldrinum 4-6 ára að æfa fótbolta, spiluðu langflestir upp fyrir sig á barns- og/eða unglingsárum, æfðu mikið eða mjög mikið aukalega utan hefðbundinna æfingatíma og prófuðu 1-2 aðrar íþróttagreinar (karfa, handbolti eða frjálsar vinsælust) en sneru sér svo alfarið að knattspyrnu þegar þeir voru 12-15 ára eða í síðasta lagi 16 ára gamlir. Lykilatriðið er að byrja snemma og að ein af íþróttagreinunum var fótbolti og sérhæfing hófst við unglingsaldur og ekki of seint.
Leikmaður í fótbolta sem byrjar að æfa knattspyrnu um 12 ára aldur getur ekki náð í allra fremstu röð í knattspyrnu. Ég bið þá sem eru ósammála mér um að nefna mér einn leikmann sem hefur náð í allra fremstu röð og byrjaði að æfa fótbolta um 12 ára aldur eða seinna, ég spái að þið finnið ekki einn einasta leikmann. Ástæðan er að 8-12 ára er mikilvægasti aldurinn til að læra flókna tækni (hreyfifærni) sem er svo mikilvægt að hafa vilji maður ná í fremstu röð í íþróttinni. Eftir 12 ára aldur minnkar geta okkar í að tileinka okkur þessa færni. Það er fínt að æfa fleiri en eina grein en viðkomandi verður ekki afreksmaður í fótbolta nema ein af þessum greinum sem stunduð er á barnsaldri sé fótbolti. Þetta er smá séns í kvennafótbolta en ekki í karlafótbolta því þar er miklu meiri samkeppni og fleiri tæknilega góðir leikmenn.
Foreldrar stjórna hvaða íþróttagrein barnið stundar, áhyggjuefnið á Íslandi er þó það að stór hluti stúlkna byrjar alltof seint að æfa fótbolta eða í 5.flokki og missa því að stórum hluta af því að stunda knattspyrnu þegar þær eru á besta hreyfinámsaldrinum og því takmarkast möguleikar þeirra á því að ná í fremstu röð seinna meir. Jafnframt er fjórðungur stúlkna yngri en 12 ára stúlkna hér á landi að æfa fótbolta hjá þjálfara sem hefur til þess enga þjálfaramenntun. Það takmarkar möguleika stúlkna á að ná í fremstu röð seinna meir enn frekar því tækniþjálfunin og þar af leiðandi grunnurinn verður ekki nógu góður. En stelpurnar geta æft sig sjálfar heima en fá oft til þess litla hvatningu. Þar geta foreldrar hjálpað.
Foreldrar barna í knattspyrnu (og kannski ekkert síður í öðrum greinum) þurfa því oft að ákveða fyrir börnin sín hvort þau vilji gefa börnunum sínum tækifæri á að seinna meir verða afreksfólk í einhverri íþrótt og gæta þess vel að börnin æfi því þá íþrótt þegar hreyfinámsaldurinn er (8-12 ára í fótbolta). Þá er áhuginn nefnilega stundum takmarkaður en kannski kemur hann seinna og þá getur orðið of seint að ætla að bæta upp skort á tæknilegri getu. Þessi punktur gleymist oft í umræðunni um hvort betra sé að stunda eina íþróttagrein eða margar.
Einn mikilvægur punktur í umræðunni gleymist oft líka en hann er sá að ef barnið byrjar of seint að æfa íþróttina og missir af glugganum sem er besti hreyfinámsaldurinn mun barnið þegar það er eldra finna að færni þess er ekki nógu góð og að viðkomandi mun skynja að það geti ekki náð nógu langt í íþróttinni sem mun svo stuðla að brottfalli úr íþróttinni.
Í mínum huga er því lausnin að byrja snemma að auka hreyfifærni, leyfa barninu að prófa mismunandi greinar en halda alltaf tryggð við 1-2 greinar sem við viljum gefa barninu okkar meiri framtíðarmöguleika á að ná langt í. Nýta vel besta hreyfinámsaldurinn með því að æfa tæknina vel svo við takmörkum ekki möguleika barnsins seinna meir að að ná í fremstu röð í íþróttinni ef það fær áhuga til þess seinna.
Tónlistarkennarinn sem lét barnið sitt æfa sig á hljóðfærið klukkutíma á dag vissi sínu viti og í dag er barnið þakklátt foreldri sínu fyrir þennan aga að láta barnið æfa sig daglega. Jú vinur minn missti út klukkutíma af leiktíma á dag af að leika við mig en ætli það sé ekki líka gaman að spila með hljómsveit fyrir fullum sal í Hörpunni, á Þjóðhátíð í Eyjum, spila með besta tónlistarfólki Íslands eða að upplifa þá innri gleði sem kemur frá því að hafa gríðarlega mikla færni á ákveðnu sviði?
Siggi Raggi