Music is my sport
Í undirbúningi okkar fyrir landsleiki hjá A-landsliði kvenna í knattspyrnu horfum við alltaf á mótiverandi vídeó. Yfirleitt bý ég þau sjálfur til en stundum lærum við af öðrum, jafnvel af einhverjum í allt öðrum geira. Hér er vídeó sem ég sýndi stelpunum í síðasta landsliðsverkefni.
Ne-Yo er frábær söngvari, lagahöfundur, tónlistarframleiðandi, dansari og leikari. Hann hefur unnið Grammy verðlaun og samið metsölulög fyrir fjölmarga af fremstu söngvurum og söngkonum í heimi. Ne-Yo er afreksmaður á sínu sviði. Í þessu vídeói má sjá hvernig hann nálgast “íþróttina sína” – sem er tónlist. Í vídeóinu felst margvíslegur lærdómur sem þú getur tileinkað þér ef þú vilt ná árangri. Hver er” íþróttin þín” og hvernig nálgast þú hana?
Permalink | | Posted in Uncategorized | No Comments
Töfrakorterið
Ég spilaði fótbolta í meistaraflokki frá 1992-2005. Ég spilaði með KR, Víkingi, Þrótti og ÍA hér á Íslandi. Sem atvinnumaður spilaði ég með Walsall og Chester í Englandi og Harelbeke í belgísku úrvalsdeildinni. Alls voru þetta 14 keppnistímabil og ég spilaði því fótbolta með sennilega 200-300 mismunandi leikmönnum eða svo. Ég spilaði með mörgum af bestu leikmönnum Íslands í gegnum tíðina.
Þegar ég lít tilbaka yfir ferilinn voru það samt ótrúlega fáir leikmenn sem æfðu aukalega. Það kom nánast aldrei fyrir að einhver varð lengur eftir æfingu og æfði sig sjálfur eða mætti fyrr á undan hinum til að ná að æfa sig aukalega. Ég gæti talið þá á fingrum annarrar handar.
Fyrir 2 árum tók ég viðtal við Gylfa Sigurðsson leikmann Tottenham því við hjá KSÍ vorum að gefa út “Tækniskóla KSÍ”. DVD disk til að hjálpa strákum og stelpum að æfa sig sjálf aukalega. Þegar ég spurði Gylfa af hverju hann væri svona góður í fótbolta sagði hann að síðan hann var lítill gutti mætti hann fyrr á æfingar eða var lengur sjálfur til að æfa spyrnur og sendingar. Hann tók ekki langan tíma í þetta sagði hann, “svona korter fyrir eða eftir hverja æfingu”. Korter er ekki mikill tími en ef þú leggur saman mörg korter færðu út fyrirbæri sem ég kalla “töfrakorterið”.
Ef þú æfir einhverja færni í 15 mínútur aukalega fyrir eða eftir æfingu og æfir 6 sinnum í viku gerir það nefnilega 90 mínútur á viku eða 6 klukkutímar á mánuði, það gerir 72 klukkutímar á ári eða 720 klukkutímar á 10 árum. Ef þú æfir þig frá c.a. 10 ára aldri eins og Gylfi Sigurðsson hefurðu æft spyrnur 720 klukkutímum lengur en hinir þegar þú verður tvítugur og verður því að jafnaði miklu betri spyrnumaður en aðrir.
Að vera afgerandi góður spyrnumaður er ein af ástæðum þess að Gylfi Sigurðsson skarar fram úr flestum öðrum sem knattspyrnumaður. Hann var ungur farinn að taka aukaspyrnur, hornspyrnur og vítaspyrnur fyrir sín lið. Hluti af ástæðunni er að hann nýtti sér “töfrakorterið”.
Vandamálið er að langflestir nenna ekki að æfa aukalega meira en hinir. Enda segir Bob Bowman þjálfari Michael Phelps sundmanns og eins fremsta íþróttamanns allra tíma að eitt einkenni alla þá sem skara framúr: “þeir nenna að leggja á sig vinnuna sem aðrir fást ekki til að gera”. Getur þú nýtt þér töfrakorterið til að ná betri árangri og aukinni færni? Eða ertu hluti af þessum 99% sem nennir því ekki?
Gerðu töfrakorterið að reglu í þinni þjálfun ef þú vilt ná árangri.
Siggi Raggi
Permalink | | Posted in Uncategorized | No Comments
Skrifaðu þína eigin sögu
Hver er fyrirmyndin þín? Er það einhver sem hefur náð árangri á sínu sviði sem þig langar til að líkja eftir?
Hérna er áskorun til þín. Geturðu náð ennþá betri árangri en fyrirmyndin þín? Það er frábær áskorun. Geturðu áorkað einhverju sem engum hefur tekist áður? Þá þarftu að leggja á þig meira en þú hefur gert áður og jafnvel meira heldur en aðrir hafa gert.
Við drekkum sama vatn og heimsmeistarar, Ólympíumeistarar og Evrópumeistarar á sínum sviðum. Oft er þín helsta takmörkun þitt eigið hugarfar. Vertu besta útgáfan af sjálfum þér. Skrifaðu þína eigin sögu. Ekki láta neitt takmarka þig.
Permalink | | Posted in Afreksfólk, Fræðsla, Fyrirlestrar, Íþróttasálfræði, KSÍ, Kvennalandsliðið í knattspyrnu, Mataræði, Um Sigga Ragga, Uncategorized | No Comments
Ísland best í heimi?
Ísland er fámennt land. Hér búa innan við 320.000 manns. Um 21.000 manns eru skráðir iðkendur í knattspyrnu. Um 14.500 karlar og 6.500 konur samkvæmt nýjustu tölum ef ég man rétt. Einu þjóðirnar innan Evrópu sem eru fámennari en við eru Færeyjar, Liechtenstein, Andorra og San Marino. Þetta setur Ísland í 49. sæti á meðal Evrópuþjóða hvað varðar fólksfjölda.
Það þarf ekki mikinn sérfræðing til að sjá að mikil fylgni er á milli fólksfjölda og árangurs í knattspyrnu. Fjölmennustu þjóðir Evrópu eru í réttri röð: Rússland, Þýskaland, Tyrkland, Frakkland, Ítalía, England og Spánn. Þessar þjóðir eru allar mjög góðar í knattspyrnu, þær hafa úr gríðarlegum fjölda leikmanna að velja. Í Englandi búa t.d. um 52 milljónir manna svo þar eru margar milljónir iðkenda í knattspyrnu. Í Þýskalandi eru 1 milljón konur að iðka knattspyrnu og hvað þá margir karlar.
Það er ljóst að Ísland mun aldrei verða svona fjölmennt land. Við getum ekki keppt við þessar þjóðir hvað varðar fólksfjölda og það fjármagn sem sett er í knattspyrnuna hjá þeim. En samt höfum við fundið leiðir til að vinna þessar stóru knatttpyrnuþjóðir í landsleikjum á undanförnum árum.
- A-landslið kvenna í knattspyrnu hefur unnið Svíþjóð, Noreg, England, Danmörk, Frakkland, Finnland og Kína á undanförnum 5 árum
- U-17 ára landslið kvenna fór í 4-liða úrslit Evrópukeppni landsliða árið 2011
- U-17 ára landslið karla fór í 8-liða úrslit Evrópukeppni landsliða árið 2012
- U-21 árs landslið karla fór í 8-liða úrslit Evrópukeppni landsliða árið 2011
- A-landslið kvenna fór í 12-liða úrslit Evrópukeppni landsliða árið 2009
- U-19 ára landslið kvenna fór í 8-liða úrslit Evrópukeppni landsliða árið 2009
Hvernig er þetta mögulegt? Á árunum 2007-2011 var U-21 árs landsliðið okkar t.d. með betri árangur en 23 fjölmennari þjóðir sem setti okkur í 2.sæti Evrópuþjóða í að ná árangri miðað við höfðatölu. Betur útskýrt hér. Hvað er svona sérstakt við íslenskan fótbolta? Hvernig geta landsliðin okkar farið að því að ná svona árangri og lagt af velli risastórar knattspyrnuþjóðir? Hvernig getur Ísland búið til hátt í 70 atvinnumenn í knattspyrnu? Við þessu er ekkert eitt rétt svar en hér kemur mín skoðun á því:
Aðstaða: Árið 2002 fór að byggjast markvisst upp miklu betri knattspyrnuaðstaða á Íslandi, 10 knattspyrnuhallir, yfir 20 gervigrasvellir og 130 sparkvellir. Þessi bylting hefur gert knattspyrnuþjálfun markvissari og gert knattspyrnu að heilsársíþrótt. Ég varð Íslandsmeistari með KR 2002 og fyrir tímabilið 2003 var aðalæfingaaðstaðan okkar malarvöllurinn úti í KR, svo var hlaupið úti og lyft lóðum. Í dag á ég 6 ára stelpu sem getur æft 3x í viku í knattspyrnuhöll. Algjör bylting í aðstöðu.
Þjálfaramenntun: Árið 2002 réð KSÍ fræðslustjóra í fullt starf og þjálfaranámskeið KSÍ voru tekin í gegn og farið var að kenna eftir fastri og markvissri námskrá. Í dag starfa 2 starfsmenn í fræðsludeild KSÍ, haldnir eru um 20 fræðsluviðburðir á ári og fjölmargir frábærir innlendir og erlendir kennarar kenna á námskeiðum sambandsins. KSÍ fékk viðurkennt þjálfaranám sitt af UEFA og í dag koma hátt í 1.000 manns á fræðsluviðburði KSÍ á ári eða 10 sinnum fleiri en árið 2001. Hér hefur orðið bylting í þjálfaramenntun.
Meðal-þjálfarinn og launaðir þjálfarar: Meðal-knattspyrnuþjálfarinn í dag á Íslandi er um þrítugt. Hann spilaði fótbolta a.m.k. upp í 2. flokk. Það eru góðar líkur á að hann hafi lokið við UEFA B þjálfaragráðu sem er alþjóðlega viðurkennt þjálfaranám, hann hefur brennandi áhuga á starfinu og er líklegur til að fara á námskeið til að sækja sér frekari þekkingu. Yfir 60% þjálfara á Íslandi hafa lokið við UEFA B gráðuna. Yfir 20% hafa lokið við UEFA A gráðuna. Allnokkrir hafa líka lokið við UEFA Pro gráðuna. Meðalþjálfarinn í flestum öðrum löndum hefur enga þjálfaramenntun eða mjög litla. Hann er líklega foreldri einhvers barns í hópnum og fær sínar æfingar jafnvel skaffaðar annars staðar frá. Hann er ekki endilega líklegur til að hafa spilað fótbolta á háu stigi. Hann er sjálfboðaliði. Á Íslandi er knattspyrnuþjálfun barna og unglinga launuð, erlendis er hún víðast hvar sjálfboðastarf sem unnið er af foreldrum. Ef barnið þitt ætlar að læra að spila á píanó er það auðvitað líklegra til að ná betri árangri ef það fengi kennslu hjá fagmanni frekar en hjá foreldri sem oft kann ekki nógu vel til verka. Sama í fótbolta.
Fjöldi æfinga: Íslensk börn og unglingar upp að vissum aldri æfa knattspyrnu fleiri tíma á viku heldur en jafnaldrar þeirra í mörgum löndum. Auðvitað er erfitt að alhæfa í þessu samhengi en þetta er sú tilfinning sem ég hef eftir að hafa rætt við fjölmarga fulltrúa erlendra knattspyrnusambanda síðustu 10 árin. Annar punktur er að hér fá allir krakkar að æfa fótbolta sem það vilja. Í mörgum löndum er það ekki þannig.
Hugarfar, dugnaður og karakter: Íslenskt hugarfar og dugnaður er útflutningsvara. Gott hugarfar virðist vera aðalsmerki íslenskra leikmanna. Gæti auðvitað verið klisja en heilt yfir held ég að íslenskir leikmenn séu til fyrirmyndar hvað þetta varðar. En ef við tökum þessa hugsun aðeins lengra sjáum við að sama hugarfar hefur ríkt hjá þeim sem hafa byggt upp knattspyrnuaðstöðuna hér á landi, hjá þeim sem rifu hér upp þjálfaramenntun, hjá þeim sem settu hér upp leyfiskerfi í knattspyrnu til mikilla heilla fyrir fótboltann, hjá þeim sem byggðu upp mannvirkin og hjá öllum þeim knattspyrnuleiðtogum sem hafa unnið ómetanlegt starf í öllum 90 félögum landsins. Ég tek hatt minn að ofan fyrir þeim rúmlega 600 knattspyrnuþjálfurum sem eru að vinna í að búa til næsta landsliðsmann og landsliðskonu. Starf þeirra er oft vanþakklátt en þau eru að skila rosalega góðu starfi. Svo góðu að aðrar þjóðir eru farnar að taka eftir þessu. Við íslendingar erum með skemmtilegt mikilmennskubrjálæði og teljum okkur geta unnið hvern sem er, gerum jafnvel ráð fyrir því. En Ísland ætlar samt að ná lengra með landsliðin sín heldur en þetta. Það er allt í vinnslu og þess vegna hlakka ég til að fara í vinnuna á hverjum degi. Áfram Ísland!
Permalink | Tags: árangur, fólksfjöldi, Landslið, þjálfun | Posted in Afreksfólk, Fræðsla, Fyrirlestrar, Íþróttasálfræði, KSÍ, Kvennalandsliðið í knattspyrnu, Mataræði, Um Sigga Ragga, Uncategorized | No Comments
Hvað get ég lært af U-21 árs landsliði Íslands í knattspyrnu?
Árin 2009-2011 eignaðist Ísland sennilega sitt sterkasta U-21 árs landslið í knattspyrnu frá upphafi. Það lið komst í lokakeppni Evrópumótsins í fyrsta skipti í okkar knattspyrnusögu. Liðið var skipað mörgum frábærum leikmönnum, Gylfa Sigurðssyni, Kolbeini Sigþórssyni og Aroni Einari Gunnarssyni svo nokkrir séu nefndir. Liðið burstaði meðal annars Evrópumeistara Þýskalands á leið sinni í lokakeppnina. En hver var ástæðan fyrir því að leikmenn liðsins voru svona góðir í fótbolta? Hvað var öðruvísi við þetta lið og hvað einkenndi leikmenn liðsins? Var hægt að sjá eitthvað mynstur? Var þetta hin svokallaða knattspyrnuhallarkynslóð? Getum við lært eitthvað af þessum hópi leikmanna og þeirra bakgrunni í knattspyrnu til að byggja upp framtíðar afreksmenn og afrekskonur okkar?
Ég vildi svör við þessum spurningum og ákvað því að gera rannsókn á þessu sjálfur. Ég sendi því spurningalistakönnun á alla leikmenn sem höfðu verið í leikmannahópi U-21 landsliðsins árin 2009 og 2010 (hópurinn sem vann sér rétt til að leika í lokakeppninni 2011). Alls svöruðu 23 af 32 leikmönnum sem höfðu a.m.k. komið inná í leikjum liðsins en 2 í viðbót höfðu verið í hóp en ekki komið inná í leik (71.9% svörun). En eftirfarandi urðu helstu niðurstöðurnar:
- Í liðinu má sjá mikil fæðingardagsáhrif. 47% leikmanna voru fæddir í janúar-mars en einungis 6% leikmanna í október-desember.
- Langflestir leikmannanna léku í yngri landsliðum Íslands og höfðu þaðan reynslu, þó ekki allir (ekki Jón Guðni, Alfreð Finnbogason og Elfar Freyr).
- 3 leikmenn töldu sig hafa verið meðal þeirra fremstu á landsvísu í sínum aldursflokki strax á aldrinum 5-6 ára, 2 leikmenn töldu sig ekki hafa orðið það fyrr en á aldrinum 19-20 ára. Svörin dreifðust mikið en flestir sögðu á aldrinum 12-17 ára. Þú getur því aldrei vitað með vissu hver verður framúrskarandi leikmaður, alveg sama hversu gamall viðkomandi leikmaður er.
- Nánast allir leikmenn liðsins sögðust hafa æft mjög mikið aukalega eða mikið aukalega fyrir utan hefðbundnar æfingar hjá sínu félagi.
- Er leikmennirnir voru spurðir að því hver þeir töldu mikilvægustu ástæður þess að þeir sem einstaklingar væru svona góðir í fótbolta var algengasta ástæðan sem var gefin upp – “Ég æfði aukalega”, í 2. sæti var svarið “góðir þjálfarar” og í 3. sæti “miklar æfingar”. Alls gáfu leikmenn upp 42 ólíkar ástæður.
- Hér er dæmi um týpískt svar leikmanns: “Ég var alltaf í fótbolta þegar ég var yngri, ef ég var ekki á æfingum þá var ég úti á velli að leika mér allan daginn. Annars vildi ég alltaf vera bestur þegar ég var yngri og lagði þá sjálfsagt meira á mig en aðrir” Eggert Gunnþór Jónsson, leikmaður Wolves í ensku úrvalsdeildinni.
- Og hér er annað: “Ég tel að maður fæðist með einhverja hæfileika, en hjá mér eru þetta bara æfingar og æfingar. Ég hef æft mig sér frá því að ég var 10 ára ef ekki yngri” Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea í ensku úrvalsdeildinni. Sjáið þið mynstrið?
- En þegar leikmenn voru spurðir af hverju liðið náði svona góðum árangri var athyglisvert að svarið “Samstilltur/Samheldinn hópur/liðsheild” fékk meira en helmingi fleiri stig en svarið sem kom í 2. sæti – “Margir mjög góðir leikmenn”. 40 mismunandi ástæður voru gefnar upp af leikmönnum fyrir árangri liðsins.
- Leikmennirnir ólust upp hjá 22 mismunandi uppeldisfélögum. Allt frá Hrunamönnum og Ægi upp í Breiðablik. Fámenn og fjölmenn félög geta því bæði búið til afreksíþróttafólk. Er leikmenn urðu eldri fóru þeir í stærri félögin eða í atvinnumennsku.
- Þessir 34 leikmenn höfðu leikið 772 landsleiki alls áður en kom að lokakeppninni. Ísland var með mjög reynt lið.
- 16 af leikmönnunum 34 höfðu leikið A-landsleik eða 47.1% hópsins. Það er mjög hátt hlutfall.
- 10 leikmenn höfðu leikið minna en sem samsvarar einu keppnistímabili í deild og bikar á Íslandi í meistaraflokki. Þeir voru nefnilega allir orðnir atvinnumenn í knattspyrnu erlendis áður en þeir komu upp í meistaraflokk.
- 91.3% leikmannanna byrjuðu að æfa knattspyrnu hjá félagi á aldrinum 4-6 ára. Þeir voru allir byrjaðir að æfa knattspyrnu 8 ára.
- 23 leikmenn ólust upp á höfuðborgarsvæðinu, 10 á landsbyggðinni (ÍA og Grindavík meðtalin) og 1 erlendis.
- 5 leikmenn höfðu eingöngu æft knattspyrnu en 18 leikmenn höfðu æft aðrar íþróttagreinar en mislengi. Algengustu greinarnar voru körfubolti, handbolti og frjálsar íþróttir. Flestir hættu í þessum greinum á aldrinum 12-15 ára og allir voru hættir í öllu nema fótbolta þegar þeir voru orðnir 16 ára.
- Hverjir eru mikilvægustu eiginleikarnir sem knattspyrnumaður þarf til að ná í fremstu röð að mati leikmannanna? Þeir svöruðu ( í réttri röð): Metnaður, hugarfar, agi, æfa aukalega, sjálfstraust, vilji/viljastyrkur og andlegur styrkur. Hvar stendur þú í þessum þáttum sem íþróttamaður eða íþróttakona? Ef þú ert þjálfari, hversu góður ertu að kenna leikmönnunum þínum þessa þætti? Tókstu eftir því hve margir þeirra eru hugarfarslegir en ekki líkamlegir? Í hvað eyðir þú æfingartímanum þínum? Leikmenn nefndu 43 mismunandi eiginleika.
- Dæmi um svar leikmanns: ““Þessir eiginleikar skilja að afreksmenn frá meðalmönnum… Mikilvægasti eiginleikinn er sjálfstraust, það er erfitt að ná árangri án þess að hafa trú á eigin getu. Af hverju ættu aðrir að hafa trú á þér þegar þú hefur hana ekki sjálfur? Agi finnst mér mjög mikilvægur og sértaklega þegar þú ert kominn lengra. Metnaður – því enginn vinnur vinnuna fyrir þig, aukaæfingar, mataræði og fleira eru hlutir sem þú verður sjálfur að sjá um. Sigurvilji, keppnisskap og að hata að tapa er nauðsynlegt og hlutur sem drífur mann áfram. Virkar betur en nokkur orkudrykkur mun nokkurn tímann gera. Að þola mótlæti er eiginleiki sem skilur jafnan að þá sem meika það og hina. Það er auðvelt þegar vel gengur en margir brotna ef eitthvað bjátar á. Þeir sem hins vegar þola mótlætið koma jafnan sterkari út úr því.
- Varðandi það hvort þetta er knattspyrnuhallarkynslóðin eða ekki mun ég skrifa sér grein. Svo og um margar aðrar áhugaverðar niðurstöður úr þessari rannsókn.
- Hér eru niðurstöðurnar í megindráttum: Leikmenn U-21 landsliðsins byrjuðu nær allir á aldrinum 4-6 ára að æfa fótbolta, spiluðu langflestir upp fyrir sig á barns- og/eða unglingsárum, æfðu mikið eða mjög mikið aukalega utan hefðbundinna æfingatíma og prófuðu 1-2 aðrar íþróttagreinar (karfa, handbolti eða frjálsar vinsælust) en sneru sér svo alfarið að knattspyrnu þegar þeir voru 12-15 ára eða í síðasta lagi 16 ára gamlir. Það er er nánast undantekning að U-21 landsliðsmaður sé fæddur á síðustu 3 mánuðum ársins (fæðingardagsáhrif). Þeir voru yfirleitt í A-liðinu í yngri flokkum og um 2/3 þeirra sköruðu ekki fram úr sem börn (voru ekki barnastjörnur). Flestir þeirra koma frá Stór-Reykjavíkurvæðinu.
- Áður en ég gerði þessa rannsókn fannst mér almenna skoðunin innan knattspyrnunnar vera sú að ungir leikmenn ættu ekki að fara út snemma heldur spila lengur á Íslandi. Það má vel vera að það sé rétt upp að ákveðnu marki. En ég sé ekki betur en að leikmenn eins og Gylfi Sigurðsson, Aron Einar Gunnarsson, Kolbeinn Sigþórsson og fleiri sem fóru ungir út í atvinnumennsku séu á góðri leið með að afsanna það.
Siggi Raggi
Permalink | | Posted in Afreksfólk, Fræðsla, Fyrirlestrar, Íþróttasálfræði, KSÍ, Kvennalandsliðið í knattspyrnu, Mataræði, Um Sigga Ragga, Uncategorized | 10 Comments