Ástríða er lykill að árangri

Ástríða er lykilatriði í því að ná árangri.  Ástríða og árangur eru nátengd fyrirbæri því ástríða er oft forsenda árangurs en verður svo líka afleiðing árangursins.  Þannig fáum við oft ennþá meiri ástríðu fyrir hlutunum eftir því sem náum betri árangri í því sem við erum að fást við.

Hér má sjá dæmi um þá miklu ástríðu sem Forrest Whitaker leikari hefur fyrir því að leika en þessa hjartnæmu ræðu hélt hann þegar hann tók á móti Óskarsverðlaunum fyrir besta leik í aðalhlutverki.  Forrest Whitaker er afreksmaður sem við getum lært af því hærra verður ekki komist í hans fagi.  Hefur þú brennandi ástríðu fyrir því sem þú ert að fást við líkt og Forrest Whitaker?

Besti leikmaður heims í knattspyrnu í dag er Lionel Messi leikmaður Barcelona.  Hann er með gríðarmikla ástríðu fyrir fótbolta og myndi eflaust spila fótbolta þó hann fengi ekki krónu fyrir það.  En Messi þurfti að ganga í gegnum mikla þrautargöngu til að verða bestur.  Hann m.a. þurfti að fá sprautur á hverjum degi í 3 ár því hann var svo lítill.  Ef Messi hefði ekki haft ástríðu fyrir fótbolta öll erfiðu árin hefði hann líklega gefist upp og endað á því að ná ekki árangri.  Sjá hér.

Hvað segir þá stjórnandinn og einn af stofnendum Apple Steve Jobs um ástríðu og árangur?  Jú Steve Jobs var á því að uppskriftin að árangri væri að hafa ástríðu fyrir því sem þú ert að gera.  Ef þú hefur ekki ástríðu fyrir því sem þú ert að gera er mjög erfitt að ná árangri því yfirleitt þarf maður að leggja á sig svo mikla vinnu til þess að ná langt og ef þú hefur ekki gaman af  því að leggja á þig þá vinnu verður árangurinn ekki eins góður.  Ef þér finnst leiðinlegt að hlaupa geturðu sennilega aldrei orðið góður langhlaupari.  Veldu þér því eitthvað sem þér finnst skemmtilegt og áhugavert og eitthvað sem þú algjörlega getur gleymt stund og stað við að gera.  Það er eitthvað sem þú hefur ástríðu fyrir.  Í því geturðu náð árangri.  Það er þó mikilvægt að vita að stundum byrjar maður á einhverju sem  maður hefur ekki mikla ástríðu fyrir en svo vex ástríðan smátt og smátt þar til maður verður algjörlega smitaður.  Það er því ekki til nein formúla fyrir ástríðu.

Annað athyglisvert sem Steve Jobs segir er að annar mikilvægur lykill að árangri er fólkið í kringum þig og við komum nánar að þeim mikilvæga þætti síðar.

Fyrir hverju hefur þú ástríðu fyrir í lífinu?

Hvernig má skipta öllu fólki upp í flokka eftir ástríðu?  Hvað einkennir hvern flokk og í hvaða flokki ert þú?

Get ég gert eitthvað í því að auka ástríðu mína sem einstaklingur, íþróttamaður eða starfsmaður og þannig færst upp um flokk?

Geta þjálfarar, stjórnendur og foreldrar gert eitthvað til að auka ástríðu þeirra sem þau þjálfa, stjórna eða vilja hafa áhrif á?

Í fyrirlestrunum sem ég held leitast ég meðal annars eftir að svara þessum spurningum og mörgum öðrum.

Ástríða er lykill að árangri.

Siggi Raggi