Ísland best í heimi?

Ísland er fámennt land.  Hér búa innan við 320.000 manns.  Um 21.000 manns eru skráðir iðkendur í knattspyrnu.  Um 14.500 karlar og 6.500 konur samkvæmt nýjustu tölum ef ég man rétt.  Einu þjóðirnar innan Evrópu sem eru fámennari en við eru Færeyjar, Liechtenstein, Andorra og San Marino.  Þetta setur Ísland í 49. sæti á meðal Evrópuþjóða hvað varðar fólksfjölda.

Það þarf ekki mikinn sérfræðing til að sjá að mikil fylgni er á milli fólksfjölda og árangurs í knattspyrnu.  Fjölmennustu þjóðir Evrópu eru í réttri röð: Rússland, Þýskaland, Tyrkland, Frakkland, Ítalía, England og Spánn.  Þessar þjóðir eru allar mjög góðar í  knattspyrnu, þær hafa úr gríðarlegum fjölda leikmanna að velja.  Í Englandi búa t.d. um 52 milljónir manna svo þar eru margar milljónir iðkenda í knattspyrnu.  Í Þýskalandi eru 1 milljón konur að iðka knattspyrnu og hvað þá margir karlar.

Það er ljóst að Ísland mun aldrei verða svona fjölmennt land.  Við getum ekki keppt við þessar þjóðir hvað varðar fólksfjölda og það fjármagn sem sett er í knattspyrnuna hjá þeim.  En samt höfum við fundið leiðir til að vinna þessar stóru knatttpyrnuþjóðir í landsleikjum á undanförnum árum.

  • A-landslið kvenna í knattspyrnu hefur unnið Svíþjóð, Noreg, England, Danmörk, Frakkland, Finnland og Kína á undanförnum 5 árum
  • U-17 ára landslið kvenna fór í 4-liða úrslit Evrópukeppni landsliða árið 2011
  • U-17 ára landslið karla fór í 8-liða úrslit Evrópukeppni landsliða árið 2012
  • U-21 árs landslið karla fór í 8-liða úrslit Evrópukeppni landsliða árið 2011
  • A-landslið kvenna fór í 12-liða úrslit Evrópukeppni landsliða árið 2009
  • U-19 ára landslið kvenna fór í 8-liða úrslit Evrópukeppni landsliða árið 2009

Hvernig er þetta mögulegt?  Á árunum 2007-2011 var U-21 árs landsliðið okkar t.d. með betri árangur en 23 fjölmennari þjóðir sem setti okkur í 2.sæti Evrópuþjóða í að ná árangri miðað við höfðatölu.  Betur útskýrt hér.   Hvað er svona sérstakt við íslenskan fótbolta?  Hvernig geta landsliðin okkar farið að því að ná svona árangri og lagt af velli risastórar knattspyrnuþjóðir?  Hvernig getur Ísland búið til hátt í 70 atvinnumenn í knattspyrnu?  Við þessu er ekkert eitt rétt svar en hér kemur mín skoðun á því:

Aðstaða: Árið 2002 fór að byggjast markvisst upp miklu betri knattspyrnuaðstaða á Íslandi, 10 knattspyrnuhallir, yfir 20 gervigrasvellir og 130 sparkvellir.  Þessi bylting hefur gert knattspyrnuþjálfun markvissari og gert knattspyrnu að heilsársíþrótt.  Ég varð Íslandsmeistari með KR 2002 og fyrir tímabilið 2003 var aðalæfingaaðstaðan okkar malarvöllurinn úti í KR, svo var hlaupið úti og lyft lóðum.  Í dag á ég 6 ára stelpu sem getur æft 3x í viku í knattspyrnuhöll.  Algjör bylting í aðstöðu.

Þjálfaramenntun: Árið 2002 réð KSÍ fræðslustjóra í fullt starf og þjálfaranámskeið KSÍ voru tekin í gegn og farið var að kenna eftir fastri og markvissri námskrá.  Í dag starfa 2 starfsmenn í fræðsludeild KSÍ, haldnir eru um 20 fræðsluviðburðir á ári og fjölmargir frábærir innlendir og erlendir kennarar kenna á námskeiðum sambandsins.  KSÍ fékk viðurkennt þjálfaranám sitt af UEFA og í dag koma hátt í 1.000 manns á fræðsluviðburði KSÍ á ári eða 10 sinnum fleiri en árið 2001.  Hér hefur orðið bylting í þjálfaramenntun.

Meðal-þjálfarinn og launaðir þjálfarar: Meðal-knattspyrnuþjálfarinn í dag á Íslandi er um þrítugt.  Hann spilaði fótbolta a.m.k. upp í 2. flokk.  Það eru góðar líkur á að hann hafi lokið við UEFA B þjálfaragráðu sem er alþjóðlega viðurkennt þjálfaranám, hann hefur brennandi áhuga á starfinu og er líklegur til að fara á námskeið til að sækja sér frekari þekkingu.  Yfir 60% þjálfara á Íslandi hafa lokið við UEFA B gráðuna.  Yfir 20% hafa lokið við UEFA A gráðuna.  Allnokkrir hafa líka lokið við UEFA Pro gráðuna.  Meðalþjálfarinn í flestum öðrum löndum hefur enga þjálfaramenntun eða mjög litla.  Hann er líklega foreldri einhvers barns í hópnum og fær sínar æfingar jafnvel skaffaðar annars staðar frá.  Hann er ekki endilega líklegur til að hafa spilað fótbolta á háu stigi.  Hann er sjálfboðaliði.  Á Íslandi er knattspyrnuþjálfun barna og unglinga launuð, erlendis er hún víðast hvar sjálfboðastarf sem unnið er af foreldrum.  Ef barnið þitt ætlar að læra að spila á píanó er það auðvitað líklegra til að ná betri árangri ef það fengi kennslu hjá fagmanni frekar en hjá foreldri sem oft kann ekki nógu vel til verka.  Sama í fótbolta.

Fjöldi æfinga: Íslensk börn og unglingar upp að vissum aldri æfa knattspyrnu fleiri tíma á viku heldur en jafnaldrar þeirra í mörgum löndum.  Auðvitað er erfitt að alhæfa í þessu samhengi en þetta er sú tilfinning sem ég hef eftir að hafa rætt við fjölmarga fulltrúa erlendra knattspyrnusambanda síðustu 10 árin. Annar punktur er að hér fá allir krakkar að æfa fótbolta sem það vilja.  Í mörgum löndum er það ekki þannig.

Hugarfar, dugnaður og karakter: Íslenskt hugarfar og dugnaður er útflutningsvara. Gott hugarfar virðist vera aðalsmerki íslenskra leikmanna.  Gæti auðvitað verið klisja en heilt yfir held ég að íslenskir leikmenn séu til fyrirmyndar hvað þetta varðar.  En ef við tökum þessa hugsun aðeins lengra sjáum við að sama hugarfar hefur ríkt hjá þeim sem hafa byggt upp knattspyrnuaðstöðuna hér á landi, hjá þeim sem rifu hér upp þjálfaramenntun, hjá þeim sem settu hér upp leyfiskerfi í knattspyrnu til mikilla heilla fyrir fótboltann, hjá þeim sem byggðu upp mannvirkin og hjá öllum þeim knattspyrnuleiðtogum sem hafa unnið ómetanlegt starf í öllum 90 félögum landsins.  Ég tek hatt minn að ofan fyrir þeim rúmlega 600 knattspyrnuþjálfurum sem eru að vinna í að búa til næsta landsliðsmann og landsliðskonu.  Starf þeirra er oft vanþakklátt en  þau eru að skila rosalega góðu starfi.  Svo góðu að aðrar þjóðir eru farnar að taka eftir þessu.  Við íslendingar erum með skemmtilegt mikilmennskubrjálæði og teljum okkur geta unnið hvern sem er, gerum jafnvel ráð fyrir því.  En Ísland ætlar samt að ná lengra með landsliðin sín heldur en þetta.  Það er allt í vinnslu og þess vegna hlakka ég til að fara í vinnuna á hverjum degi.  Áfram Ísland!

Tags: , , ,

Leave a Comment