Hvernig á að búa til atvinnumann í knattspyrnu?

Hér koma góð ráð frá mér um hvernig á að búa til atvinnumann í knattspyrnu, sumt byggt á rannsóknum, annað á minni reynslu í bráðum 11 ár sem fræðslustjóri KSÍ og svo persónulegum skoðunum mínum.  Ég spilaði sjálfur sem atvinnumaður í knattspyrnu í Englandi og Belgíu.  Mjög margir þjálfarar, félög, leikmenn og foreldrar velta þessu fyrir sér og hafa spurt um mitt álit svo hér koma mín ráð.

1. Byrjaðu að æfa knattspyrnu snemma:  Allir leikmenn gullaldarliðs U-21 landsliðs karla í knattspyrnu byrjuðu að æfa fótbolta á aldrinum 4-6 ára nema 2 leikmenn sem báðir voru markmenn og þeir byrjuðu 7 ára  og 8 ára.  Í dag byrja mörg börn að æfa knattspyrnu um 4-6 ára gömul.  Fræðslustjórar allra knattspyrnusambanda á Norðurlöndunum eru allir sammála um að ef drengur byrjar að æfa knattspyrnu eftir 12 ára aldur eru engar líkur á að viðkomandi nái í fremstu röð í knattspyrnu eða í A-landslið.  Ef þú ert ósammála máttu endilega benda mér á einhvern A-landsliðsmann í knattspyrnu sem byrjaði að æfa fótbolta eftir 12 ára aldur.  Ég spái því að þú finnir engan.  Það virðist aðeins öðruvísi með stelpur eins og er, þær geta byrjað aðeins seinna en strákar, kannski því það eru miklu færri stelpur að æfa fótbolta en strákar og því minni samkeppni, færri góðir leikmenn og því að mörgu leyti auðveldari leið á toppinn.  Sif Atladóttir A-landsliðskona byrjaði að æfa knattspyrnu 15 ára gömul en hafði samt frábæran íþróttabakgrunn úr öðrum greinum, hún er undantekningin sem sannar regluna.  Ég veit ekki um neinn strák.  Engan!

2.  Æfðu tækni mest af öllu: Lang mikilvægasti eiginleikinn til að ná langt í knattspyrnu er tækni. Besti aldurinn til að læra tækni í fótbolta er 8-12 ára.  Við skulum bæta 1-2 árum við sitt hvoru megin við þá tölu til að vera örugg því þroski barna er mismunandi hraður.  Á þessum aldri ættu allar æfingar að vera gerðar með bolta.  Já hver ein og einasta!  Tækni næst með því að vera alltaf að leika sér með bolta og herma eftir þeim bestu, æfa trixin þeirra, með því að vera alltaf í snertingu við boltann og að leika sér með hann.  Æfingar á þessum aldri eiga að vera í fámennum hópum, alltaf með bolta og þjálfarinn þarf að vera duglegur að leiðrétta ranga færni, kenna grunninn eins vel og hægt er, ár eftir ár.  Með því að kenna grunninn ertu að gefa leikmanninnum þau verkfæri sem hann þarf seinna meir til að ná langt í knattspyrnu kjósi hann að fara þá leið.  Leikmaður sem æfir ekki fótbolta á aldrinum 8-12 ára mun aldrei öðlast nægilega tæknilega færni til að ná framúrskarandi árangri í knattspyrnu.  Arsene Wenger stjóri Arsenal er sammála mér og það má sjá í myndbandinu hér að neðan.  Tækni er undirstaða alls árangurs í fótbolta.  Tækni er fegurð íþróttarinnar okkar.

Stelpur yrðu líka klárlega betri í fótbolta ef þær myndu æfa meiri tækni og leika sér meira með bolta þegar þær eru á næmisskeiði fyrir tækniþjálfun (8-12 ára plús 1-2 ár til viðbótar).  Því miður er mjög mikill munur á tæknilegri getu hja stelpum og strákum sem eru jafngömul á öllum aldursstigum hér á landi í knattspyrnu að mínu mati.  Munur sem þarf ekki að vera.  Skortur á tæknilegri getu er það sem hamlar okkur að ná ennþá lengra stelpumegin.

Bestu leikmenn heims og bestu lið heims byggja leik sinn upp á framúrskarandi tækni og já þeir eru líka gott íþróttafólk en líkamlegi þátturinn kemur meira inn þegar börnin verða eldri.  La Masia, knattspyrnuakademía Barcelona er sú besta í heimi og gerir engar fitness æfingar með leikmönnunum sínum til 16 ára aldurs, þar er allt gert með bolta.

3. Æfðu 2-3 íþróttagreinar til unglingsaldurs: Rannsóknir hafa gefið nokkuð misvísandi niðurstöður um hvort borgi sig að æfa bara eina íþróttagrein eða margar til að verða afreksmaður enda er ekki til ein formúla sem virkar á alla.  Þú finnur dæmi um afreksíþróttafólk sem hefur farið báðar leiðir.  Tiger Woods var t.d. alltaf bara í einni íþróttagrein og mörg dæmi mætti nefna úr hvorum hóp fyrir sig.  Þó margir í gullaldarliði U-21 landsliði karla hafi verið í 2-3 greinum voru það færri sem höfðu eingöngu æft fótbolta.  U-21 landsliðs strákarnir hættu þó flestir í öllu nema fótbolta á aldrinum 12-15 ára og allir voru hættir í öllu nema fótbolta við 16 ára aldur.   Þá þarf sérhæfing að hefjast.

Ég er á því að betri rök séu fyrir því að stunda fótbolta og svo til viðbótar 1-2 greinar sem innihalda fjölbreytta hreyfingu og finna má margar rannsóknir því til stuðnings þó það sé engin ein rétt leið til.  Fimleikar, frjálsar, körfubolti og handbolti eru dæmi um góðar greinar sem gætu passað vel með fótboltanum.  Veldu greinina sem barninu finnst skemmtileg.  Stefna KSÍ í þjálfun barna hvetur börn til að vera í fleiri en einni íþróttagrein og ég er algjörlega sammála því.  En ef einhver ætlar að ná í fremstu röð í knattspyrnu getur engin önnur grein komið í staðinn fyrir knattspyrnuna!  Þú getur semsagt ekki æft fimleika og frjálsar og sleppt fótbolta á aldrinum 8-12 ára og byrjað svo að æfa fótbolta 13 ára og ætlast til að ná í fremstu röð (þú getur það hugsanlega ef þú ert stelpa í dag en það er samt mjög ólíklegt því samkeppnin er að aukast þar líka).  Þú þarft að æfa fótboltann til að fá boltatæknina.  Hinar greinarnar gera leikmennina að betra íþróttafólki og hjálpa þeim að ná fjölbreyttari hreyfifærni og gera leikmennina betri alhliða.  Þær koma líka í veg fyrir of einhæft álag og geta mögulega minnkað brottfall, leiða og meiðsli.  Einbeittu þér eingöngu að knattspyrnu frá 15-16 ára aldri í allra síðasta lagi.

4. Mikilvægasta persónan sem stuðlar að því að leikmaðurinn nái árangri í knattspyrnu er leikmaðurinn sjálfur: Ransóknir og kenningar fræðimannsins Anders Ericson hjá Florida State University um hvað þurfi til að búa til afreksíþróttamann  benda til að afreksfólk þurfi að æfa markvisst að jafnaði í 10.000 klukkustundir til að ná framúrskarandi árangri í íþróttinni sinni.  Í sumum greinum þarf að æfa minna en þetta og í öðrum meira.  Ef þú æfir fótbolta 5x í viku í 90 mín í senn allan ársins hring tekur það þig 25 ár af æfingum að ná 10.000 klukkutímum.  Því þarf að byrja snemma og æfa mikið og lengi.  En til að geta æft svona mikið þarf leikmaðurinn sjálfur að hafa brennandi áhuga á knattspyrnu, með öðrum orðum hafa ástríðu fyrir fótbolta, annars gefst hann upp.  Góður þjálfari og stuðningur foreldra hafa pottþétt jákvæð áhrif en það getur enginn lagt svona mikið á sig af æfingum yfir svona langan tíma án þess að hafa ástríðu fyrir fótbolta.
Þegar skoðaður er námsárangur í skólakerfinu kemur í ljós að mikilvægasti þátturinn sem útskýrir námsárangur nemenda er í raun nemandinn sjálfur.  Þjálfarinn fylgist kannski með 20 leikmönnum á æfingu og því er erfitt að fylgjast með hverjum einstaka leikmanni.  Leikmennirnir sjálfir bera því ábyrgð á að leggja sig fram. Leikmaðurinn sjálfur er sá sem ákveður að mæta á æfinguna, hversu mikið hann leggur sig fram á æfingunni og hversu vel hann reynir að læra nýja færni eða endurtaka gamla færni.  Ef leikmaðurinn hefur ekki áhuga er vonlaust að ætla að kenna honum eitthvað.  Stærsti hlutinn af því að ná árangri býr því innra með leikmanninum sjálfum.

5. Næst mikilvægasta persónan er þjálfarinn:  Þjálfarinn er mikilvægari en aðstaðan, stærð félagsins, leikmennirnir sem þú æfir með líkt og rannsóknir á kennslu sýna að kennarinn er mikilvægari en kennslustofan, stærð skólans og samnemendur.  Þjálfari barns á að vera jákvæður, skemmtilegur, gefa af sér, hrósa mikið, bæta færni, vera kennari, vera þolinmóður, vera fyrirmynd, ná vel til barna, vera með fjölbreytta og skemmtilega leiki og gera allt með bolta.  Þjálfari unglinga þarf að hafa góða stjórn á hópnum, hann þarf að kenna leikfræði og með tímanum líkamlega og andlega þætti og smátt og smátt innleiða meiri afrekshugsun hjá leikmönnunum.   Hann þarf umfram allt að hafa hagsmuni unglingsins að leiðarljósi og vera kennari.  Allir þjálfarar þurfa að geta mætt leikmanninum þar sem hann er staddur, geta sagt honum til, hjálpað honum að taka framförum.  Í meistaraflokki er oft fjölbreyttari flóra af þjálfurum sem nota mismunandi stjórnunaraðferðir.  Á öllum aldri þarf þjálfarinn að hafa mikla þekkingu á íþróttinni, sérstaklega þegar ofar dregur.  Þjálfarinn ætti að hafa lokið við þjálfaramenntun og það er ekki verra að hann hafi sjálfur náð langt í íþróttinni en þó er það ekki endilega bráðnauðsynlegt.  Þjálfarar geta byggt upp einstaklinga, búið til rétt umhverfi fyrir leikmenn til að vaxa og þroskast í, og hjálpað leikmönnum að bæta færni.  Góður þjálfari er lykilatriði ef ætlunin er að ná langt.  Góður þjálfari er því fjárfesting fyrir íþróttafélögin.  Góði þjálfarinn er ekki endilega þjálfarinn sem vinnur alla titlana í yngri flokkum samt.  Það er ekki besti mælikvarðinn.

6. Foreldrastuðningur er mikilvægur:  Nær allir leikmenn A-landsliðs kvenna hafa fengið frábæran stuðning frá sínum foreldrum.  Foreldrar þeirra ferðast á milli landa til að horfa á þær spila.  Foreldrarnir þeirra hafa verið tilbúnir að keyra dætur sínar jafnvel mörg þúsund kílómetra á hverju ári á æfingar.  Rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl milli áhorfs foreldra og hreyfingu barna.
Börn foreldra sem eru til staðar og mæta reglulega að horfa á æfingar eða mót,virðast hreyfa sig oftar og af meiri ákefð. 

Því miður hafa rannsóknir sýnt að stelpur fá minni stuðning til íþróttaiðkunar en strákar frá foreldrum sínum.  Besti stuðningurinn er að elska börnin sín eins og þau eru, hjálpa þeim, fagna með þeim þegar vel gengur og styðja við bakið á þeim þegar illa gengur, vera öxlin sem þau geta grátið á þegar á þarf að halda, hvetja þau en ekki setja á þau pressu.  Algeng ástæða brottfalls úr íþróttum er of mikil pressa frá foreldrum um að ná árangri, vinna leiki og keppnir.  Auðvitað viljum við öll að börnunum okkar gangi vel en rétta leiðin er ekki að setja of mikla pressu um árangur.  Stuðningur er ekki það sama og fjarstýra börnunum sínum frá hliðarlínunni, stuðningur er ekki það sama og að finnast úrslit leiksins skipta öllu máli.  Hér má sjá öll góðu ráðin sem KSÍ ráðleggur foreldrum sem vilja styðja vel við börnin sín í knattspyrnunni.

Þetta er aðeins fyrri hluti pistilsins, því ég er með mörg önnur góð ráð.  Tékkið reglulega á www.siggiraggi.is og sjáið fleiri góð ráð til að búa til atvinnumann í knattspyrnu.  Hafið í huga að það tekur mörg ár að búa til atvinnumann í knattspyrnu og það er aðeins örlítil prósenta sem nær svo langt í íþróttinni.  Engu að síður getur bæði verið skemmtilegt og gagnlegt að velta fyrir sér leiðum til að ná árangri.

Siggi Raggi

Arsene Wenger – Hvernig býrðu til atvinnumann í knattspyrnu? from Siggi Eyjolfsson on Vimeo.

1 Response to "Hvernig á að búa til atvinnumann í knattspyrnu?"

Leave a Comment