Afrekin í lífinu okkar

Í dag var mjög eftirminnilegur dagur hjá mér í vinnunni en ég vinn sem fræðslustjóri Knattspyrnusambands Íslands.  Það sem var sérstakt var að ég hélt fyrirlestur fyrir valdamesta mann í heiminum í knattspyrnu, forseta FIFA (Alþjóða knattspyrnusambandsins) Joseph Blatter sem er staddur í heimsókn hér á landi á vegum KSÍ.

Mitt hlutverk var að kynna fyrir Blatter íslenska knattspyrnu.  Það er efni sem stendur nærri hjarta mínu og ég hef sterkar skoðanir á enda hef ég eytt drjúgum hluta af lífi mínu í að stuðla að uppbyggingu knattspyrnunnar hér ásamt þúsundum íslendinga sem elska fótbolta.  Blatter var mjög hrifinn af fyrirlestrinum og óskaði eftir að fá afrit fyrir FIFA.  Blatter hrósaði okkur svo fyrir þann árangur sem hefur náðst hér á landi í þjálfun ungra leikmanna, árangri landsliðanna og uppbyggingu þjálfaramenntunar og knattspyrnumannvirkja en síðustu 10 ár hafa verið sannkölluð bylting á öllum þessum sviðum.

Blatter spurði mig svo m.a. hvar ég hefði lært og um minn bakgrunn.  Ég sagði honum það og svo sagði hann “hérna ertu svo búinn að vinna sem fræðslustjóri KSÍ í 10 ár”.  Ég sagði við hann “já en ég lít ekki á það sem vinnu því ég er að gera það sem ég elska að gera.  Þetta er miklu fremur ástríða.  Þegar maður hefur ástríðu fyrir því sem maður er að gera verður þetta nefnilega ekki eins og vinna heldur forréttindi eða köllun við að starfa við það sem maður elskar að gera”.  Ég hlakka til að fara í vinnuna á hverjum morgni og hef gert það frá fyrsta degi sagði ég.  Ástríða hjálpar manni að ná árangri í starfi.

Það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir KSÍ að forseti FIFA fái jákvæða og góða kynningu af íslenskri knattspyrnu og eftir daginn fannst mér ég hafa gert mitt til að svo mætti verða og því hafa unnið smá afrek.

En afrekin í lífinu eru margvísleg og ánægjulegasti partur dagsins hjá mér var í kvöld þegar ég fór út á sparkvöll með 7 ára dóttur minni og vinkonum hennar að leika okkur í fótbolta.  Ég tapaði að sjálfsögðu naumlega 10-2!  Fótbolti er stór partur af lífi mínu en það verður alltaf stærsta afrekið mitt í lífinu að hafa eignast dóttur mína og um leið mín mesta blessun í lífinu.  Það er afrek sem ég get aldrei nokkurn tímann toppað.

Siggi Raggi

2 Responses to "Afrekin í lífinu okkar"

Leave a Comment