Að læra af þeim bestu

Ég fór á landsleikinn Ísland-Sviss í kvöld á Laugardalsvelli og ég var stoltur af landsliðinu okkar þrátt fyrir tap.  Upp til hópa eru þetta frábærir drengir sem skipa liðið og þjálfarar liðsins og allir í kringum liðið eru virkilega færir á sínu sviði.  Þar ríkir fagmennska og mikill vilji til að ná árangri.  Það er uppskrift sem á eftir að skila sér þó það taki auðvitað alltaf einhvern tíma því liðið er ungt og stutt síðan þjálfararnir byrjuðu með liðið.  “Strákarnir okkar” eru ekkert öðruvísi en “stelpurnar okkar”, þeir spila af lífi og sál fyrir land og þjóð og við eigum að vera stolt af þeim því þetta eru dætur okkar og synir sem fara í landsliðsbúninginn hverju sinni. Það var gaman að upplifa hve margir komu að horfa á og styðja liðið í kvöld.

Þegar ég var lítill átti ég vin sem bjó í næstu blokk og pabbi hans var dómari.  Þeir feðgar buðu mér stundum með sér á landsleiki.  Það fannst mér mögnuð upplifun og þessir landsleikir lifa ennþá sterkt í minningunni og höfðu mjög mótandi áhrif á mig.  Þar sá ég hetjur og fyrirmyndir mínar á knattspyrnuvellinum sem hvatti mig áfram í fótboltanum.  Ég reyndi að læra af þeim bestu.  Þegar ég las pistilinn sem Edda Garðarsdóttir  sendi frá sér í dag rifjaðist þetta upp fyrir mér.  Ég læt því pistilinn hennar Eddu fylgja hér með því hún segir miklu betur frá þessu en ég og þetta eru flott lokaorð því eins og Edda er ég farinn til Úkraínu með kvennalandsliðinu.

Ég vonast til að sjá ykkur öll á kvennalandsleiknum Ísland-Úkraína, 25. október næstkomandi á Laugardalsvelli.  Þar á kvennalandsliðið möguleika á að tryggja sig inn í lokakeppni EM sem fer fram í Svíþjóð á næsta ári.  Mikið rosalega væri gaman að sjá þig á vellinum með dætur þínar og syni, öskra þig hása(n) með teppi og kakóbrúsa.  Það verður íslenskt veður  en við erum jú íslendingar og eigum að þola það.   Ég hlakka til að sjá þig.  Áfram Ísland!


Siggi Raggi

Leave a Comment